Innlent

Þúsundir minnast Jóhanns á samfélagsmiðlum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Jóhann Jóhannsson ásamt Felicity Jones, James Marsh og Eddie Redmayne sem störfuðu öll með Jóhanni við kvikmyndina The Theory of Everyting. Jóhann heldur á Golden Globe-verðlaunastyttunni sem hann hlaut fyrir tónlist sína í myndinni.
Jóhann Jóhannsson ásamt Felicity Jones, James Marsh og Eddie Redmayne sem störfuðu öll með Jóhanni við kvikmyndina The Theory of Everyting. Jóhann heldur á Golden Globe-verðlaunastyttunni sem hann hlaut fyrir tónlist sína í myndinni. Vísir/Getty
Jóhann Jóhannsson tónskáld lést í gær 48 ára að aldri. Íslenskir og erlendir tónlistarmenn, blaðamenn, leikstjórar, auk aðdáenda Jóhanns og samstarfsmanna minnast hans nú á samfélagsmiðlum.

Greint var frá andláti Jóhanns í dag en hann fannst látinn á heimili sínu í Berlín í gær. Umboðsskrifstofa Jóhanns, Gorfaine/Schwartz Agency, og umboðmaður hans, Tim Husom, staðfestu einnig andlát Jóhanns.

„Við erum mjög sorgmædd vegna ótímabærs andláts umbjóðanda okkar og vinar, Jóhanns Jóhannssonar en hans miklu hæfileikar, hógværð og góðmennska auðgaði líf okkar ómælanlega," sagði í yfirlýsingu frá Gorfaine/Schwartz.

Þá hafa erlendir fjölmiðlar margir greint frá andláti Jóhanns, þar á meðal Variety, Rolling Stone, Independent, Pitchfork og Deadline. Umfjallanir miðlanna má nálgast í gegnum hlekkina hér að framan.

Jóhanns er einnig minnst á samfélagsmiðlum en ljóst er að hann hefur snert strengi í hjörtum margra með tónlist sinni. Samkvæmt tölfræði Twitter hafa hátt í tólf þúsund tíst um Jóhann farið í loftið á síðustu klukkutímum.

Ólafur Arnalds tónlistarmaður er einn þeirra sem sleginn er yfir fréttunum en hann segir Jóhann hafa haft mikil áhrif á sig.

Logi Pedro Stefánsson, tónlistarmaður og pródúsent, sendir fjölskyldu og vinum Jóhanns samúð sína. „Gjörsamlega dáði og dýrkaði Jóhann Jóhannsson,“ skrifar Logi á Twitter-reikningi sínum.

Tónlistarkonan Hildur segir Ísland hafa misst einn sinn merkilegasta tónlistarmann. Það verða að teljast orð að sönnu en Jóhann hefur á undanförnum árum skapað sér nafn sem eitt virtasta kvikvikmyndatónskáld síðari ára. Hann hlaut til að mynda Golden Globe-verðlaunin fyrir tónlistina í kvikmyndinni The Theory of Everything auk þess sem að hann var tilnefndur til Óskarsverðlauna, Bafta og Grammyverðlauna fyrir tónlistina.

„Einstakt og hæfileikaríkt tónskáld,“ skrifar Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, á Twitter.

Píanóleikarinn Víkingur Heiðar Ólafsson þakkar Jóhanni fyrir framlag sitt til tónlistar. „Takk fyrir að vera svona hlý og einlæg manneskja, snjöll, djúp og falleg,“ skrifar Víkingur.

Leikarinn Ólafur Darri Ólafsson segir fréttir af andláti Jóhanns sorglegar og sláandi og vottar fjölskyldu og vinum Jóhanns samúð sína. Jóhann var ókvæntur en lætur eftir sig dóttur.

„Hvíl í friði,“ segir Stefán Karl Stefánsson leikari. Þá sendir hann dóttur Jóhanns og fjölskyldu hans samúðarkveðjur.

„Elsku Jói. Takk fyrir þína ómetanlegu samfylgd, öll þín listaverk og alla þína snilligáfu,“ skrifar Páll Óskar Hjálmtýsson tónlistarmaður í minningu Jóhanns.

Samúðarkveðjur berast einnig erlendis frá enda hafði Jóhann að mestu starfað utan landsteinanna undanfarin ár með glæsilegum árangri, eins og landsmönnum er flestum kunnugt um.

Peyton Reed, sem leikstýrði kvikmyndum á borð við Antman, Yes Man og Bring it on, er á meðal hinna fjölmörgu sem minnast Jóhanns. Reed segist öfunda þá sem muni nú komast í kynni við tónlist Jóhanns í fyrsta skipti.

Þá hafa breska útvarpskonan Edith Bowman, Kristopher Tapley, blaðamaður Variety, og Guy Lodge, sem starfar sem kvikmyndagagnrýnandi hjá miðlum á borð við Variety og The Guardian, minnst Jóhanns á Twitter-reikningum sínum í dag.

Starfsbróðir Jóhanns, tónskáldið Max Richter, hyggst hlusta á tónverkið Virðulegu forsetar í minningu Jóhanns.

Samfélagsmiðillinn Twitter hefur tekið saman svokallað „moment“, eða augnablik, þar sem skoða má fréttir og minningarfærslur í kjölfar andláts Jóhanns. Þá má renna yfir öll tíst um Jóhann Jóhannsson hér neðst í fréttinni.


Tengdar fréttir

Jóhann Jóhannsson látinn

Jóhann Jóhannsson tónskáld er látinn. Fannst hann látinn á heimili sínu í Berlín í gær




Fleiri fréttir

Sjá meira


×