Michy Batshuayi tryggði Borussia Dortmund sigur í uppbótartíma þegar liðið mætti Atalanta á heimavelli í fyrri leik liðanna í 32-liða úrslitum Evrópudeildar UEFA.
Heimamenn byrjuðu betur og komust í forystu með marki frá André Schürrle eftir hálftíma leik og fóru með eins marks forystu í leikhléið.
Gestirnir voru ekki lengi að jafna leikinn þegar flautað var til leiks að nýju en Jospi Ilicic skoraði á 51. mínútu. Hann var svo aftur á ferðinni fimm mínútum seinna og kom Atalanta yfir.
Lánsmaðurinn frá Chelsea jafnaði fyrir Dortmund á 65. mínútu eftir fyrirgjöf frá Mario Götze og hann bjargaði svo deginum með sigurmarkinu á 91. mínútu.
AC Milan átti ekki í erfiðleikum með Ludogorets Razgrad og getur bókað miða í 16-liða úrslitin eftir 3-0 útisigur. Marseille vann einnig 3-0 sigur, reyndar á heimavelli, gegn portúgalska liðinu Sporting Braga.
Batshuayi skoraði sigurmark í uppbótartíma
Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
