Fyrir tæpum tveimur vikum féllst ríkisstjórnin á tillögu Guðmundar Inga Guðbrandssonar, umhverfis- og auðlindaráðherra, þess efnis að skipuð yrði þverpólitísk nefnd með fulltrúum allra flokka á þingi, auk tveggja fulltrúa sveitarfélaga og fulltrúa forsætis- og umhverfis- og auðlindaráðuneytisins, um stofnun þjóðgarðs á miðhálendinu. Með nefndinni mun starfa samráðshópur þeirra sem eiga sérstakra hagsmuna að gæta, til að mynda náttúruverndarsamtök, útivistarsamtök, ferðaþjónustuaðilar, bændur og orkufyrirtæki.

Ekki er til ein algild regla um hvort veiði sé leyfð í þjóðgörðum eður ei. Eru þeir í raun með mismunandi skilgreind verndarviðmið.
„Hingað til hefur sú leið yfirleitt verið farin að hægt sé að halda áfram hefðbundnum nytjum. Þá verður auðvitað að vera tryggt að náttúran fái að þróast áfram á sínum forsendum og veiðarnar séu sjálfbærar,“ segir Áki. Sem dæmi um fyrirkomulag sem hafi gefið ágæta raun nefnir hann meðal annars hreindýraveiðar innan Vatnajökulsþjóðgarðs. „Það á ekki að banna veiðar bara til að banna þær.“
Áki segir að nýrrar stjórnar bíði fleiri verkefni. Til standi að taka veiðistjórnunarkerfið og vopnalög til endurskoðunar á næstunni. „Ég geri fastlega ráð fyrir að sú vinna fari af stað á árinu,“ segir Áki.
„Í allri vinnu og umræðu um náttúruvernd verður að muna að veiðar og umhverfisvernd eru ekki andstæðir pólar. Oft á tíðum eru veiðar jákvæðar fyrir náttúruvernd og geta stundum unnið sérstaklega með hagsmunum náttúrunnar,“ segir hann. „Aðalatriðið er að bera virðingu fyrir náttúrunni.“