Sport

Breskur sjónvarpsmaður hljóp um á stuttbuxunum í sextán gráðu frosti

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
@robwalkertv
Rob Walker er mættur til Pyeongchang í Suður-Kóreu þar sem hann mun lýsa því sem gerist á 23. vetrarólympíuleikunum fyrir BBC.

Margir héldu að hér væri á ferðinni hinn venjulegi fréttamaður sem héldi sig bara inni í hlýjunni á meðan íþróttafólkið berst við aðstæðurnar og kuldann sem hefur verið mikill í Pyeongchang síðustu daga. En ekki Rob Walker.

Rob Walker mætti í dag út á skíðagöngubraut til að kanna aðstæður og þrátt fyrir sextán gráðu frost og talsverða vinkælingu þá mætti karlinn buxnalaus.





Walker hljóp um á stuttbuxunum og vakti talsverða athygli hjá hinum fjölmiðlamönnunum sem voru á svæðinu.

„Mér var virkilega kalt,“ sagði Rob Walker í stuttu samtali við SportExpressen. Þetta eru hans þriðju vetrarólympíuleikar og það hefur myndast hefð fyrir því að hann hlaupi um skíðagöngubrautina á stuttbuxunum.

„Þetta var ekkert vandamál í Sotsjí. Það var bara notalegt,“ sagði Walker.

„Ég hef aldrei hlaupið í svona miklum kulda áður. Fólk hefur líka sagt við mig að ég sé galinn að reyna þetta,“ sagði Walker við SportExpressen.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×