Innlent

Óvenju margir greindust með lifrarbólgu A á liðnu ári

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Þá var einkum aukning á fjölda tilfella af lekanda og sárasótt miðað við undanfarin þrjú ár.
Þá var einkum aukning á fjölda tilfella af lekanda og sárasótt miðað við undanfarin þrjú ár. Vísir/Vilhelm
Kynsjúkdómar færðust í aukana á árinu 2017 og óvenju margir greindust með lifrarbólgu A. Þetta kemur fram í Farsóttarfréttum, fréttabréfi sóttvarnarlæknis. Þrjú mislingatilfelli komu upp á Íslandi og iðrasýkingar voru sérlega áberandi á síðasta ári.

Einkum var aukning á fjölda tilfella af lekanda og sárasótt miðað við undanfarin þrjú ár. Á fjórða tug einstaklinga greindust með sárasótt og yfir hundrað manns með lekanda. Fjöldi klamydíutilfella og HIV - sýkingar var svipaður og árið á undan. Samtals greindust 27 einstaklingar með HIV-sýkingu og var meðalaldur hinna sýktu 35 ár. Af þeim voru þrjár konur og tveir af hverjum þremur voru af erlendu bergi brotnir.

Einnig greindust óvenju margir með lifrarbólgu A á árinu 2017 eða fimm einstaklingar en síðustu fjögur ár á undan höfðu engin tilfelli komið upp. Flest tilfellin tengdust  lifrarbólgu A faraldri meðal samkynhneigðra karla í Evrópu.

Einnig er sagt frá þremur mislingatilfellum hér á landi í fréttabréfi sóttvarnarlæknis. Þar er um að ræða níu mánaða tvíburabræður en annar þeirra smitaðist í Taílandi og smitaði svo bróður sinn, og fullorðinn karlmann, sem smitaðist í Bangladesh. Mislingatilfellin eru sögð endurspegla viðvarandi vandamál sem tengist mislingum og skorti á bólusetningum erlendis.

Fjallað er sérstaklega um iðrasýkingar í fréttabréfinu enda hafi þær verið áberandi á árinu 2017. Þar er nefnd hópsýking af völdum nóróveiru meðal skáta í ágúst. Seinna í sama mánuði braust út hópsýking meðal 130 starfsmanna grunnskóla sem rekja má til óhreinsaðs blaðsalats í mötuneytinu. Og um miðjan nóvemer hófst hópsýking meðal fimmtíu starfsmanna alþjóðlegs fyrirtækis með höfuðstöðvar í Reykjavík en rannsóknir leiddu ekkert markvert í ljós sem skýrt gæti hópsýkinguna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×