Erlent

Nýfæddar stjörnur í glóandi gasskýi í nýju myndbandi NASA

Kjartan Kjartansson skrifar
Nýfæddar stjörnur, glóandi gas og rykskífur sem eru að mynda ný sólkerfi eru á meðal þess sem ber fyrir augu í myndbandinu af Sverðþokunni.
Nýfæddar stjörnur, glóandi gas og rykskífur sem eru að mynda ný sólkerfi eru á meðal þess sem ber fyrir augu í myndbandinu af Sverðþokunni. NASA, ESA, F. Summers, G. Bacon, Z. Levay, J. DePasquale, L. Frattare, M. Robberto and M. Gennaro (STScI), and R. Hurt (Caltech/IPAC)
Bandaríska geimvísindastofnunin NASA hefur sameinað myndir frá tveimur geimsjónaukum til þess að búa til þrívíddarlíkan af Sverðþokunni, skærustu stjörnuþokunni á næturhimninum, í nýju myndbandi. Með því geta áhorfendur skoðað fæðingarstað stjarna í þokunni.

Sverðþokan, einnig þekkt sem Messier 42, er það stjörnumyndunarsvæði í Vetrarbrautinni sem er næst jörðinni. Hún er jafnframt eitt bjartasta fyrirbærið á næturhiminum og þekur fjórfalt stærra svæði en fullt tungl, að því er segir á Stjörnufræðivefnum.

Hún er um 24 ljósár að þvermáli og sést jafnvel með berum augum frá jörðinni. Hana má finna sunnan Fjósakvennanna í stjörnumerkinu Óríon.

Augu manna geta þó ekki greint Sverðþokuna í öllu sínu veldi. Því skeyttu sérfræðingar NASA saman myndum frá Hubble-geimsjónaukanum, sem tekur myndir á sýnilega hluta litrófsins auk útfjólublá og nærinnrauða hlutans, við myndir frá Spitzer-geimsjónaukanum, sem er næmur fyrir innrauðu ljósi.

Með hjálp þess sem þeir kalla „Hollywood-brellur“ bjuggu þeir til myndband af flugi í gegnum Sverðþokuna í þrívídd.

„Að geta flogið í gegnum vefnað stjörnuþokunnar í þremur víddum gefur fólki miklu betri tilfinningu fyrir því hvernig alheimurinn er í raun og veru,“ segir Frank Summers frá Geimsjónaukavísindastofnuninni (STScI) sem leiddi hópinn sem setti saman myndbandið hjá NASA.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×