Innlent

Varað við slæmu ferðaveðri undir Öræfajökli

Birgir Olgeirsson skrifar
Það er mjög hvasst undir Öræfajökli og skafrenningur og því blint til aksturs.
Það er mjög hvasst undir Öræfajökli og skafrenningur og því blint til aksturs. Loftmyndir ehf.
Lögreglan á Suðurlandi varar við slæmu ferðaveðri undir Öræfajökli þessa stundina. Þar er mjög hvasst og skafrenningur og því blint til aksturs. Þeim sem ekki þurfa nauðsynlega að vera á ferðinni er bent á að doka við og bíða eftir að aðstæður skáni. 

Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að hálka sé á flestum leiðum á Suðurlandi og hálka og hálkublettir á Suðurlandi. Á Vestfjörðum hálka á vegum en snjóþekja norður í Árneshrepp. Hrafnseyrar- og Dynjandisheiðar eru ófærar.

Hálka eða snjóþekja er á flestum leiðum á Norðurlandi og víða skafrenningur á fjallvegum.

Það er einnig snjóþekja eða hálka á vegum á Austurlandi en þæfingsfærð á Vatnsskarði eystra. Ófært yfir Öxi og Breiðdalsheiði. Snjóþekja er með Suðausturlandi og éljagangur.Vegagerðin og Náttúrustofa Austurlands vara vegfarendur við umferð hreindýra á Austur- og Suðausturlandi.

Veðurstofa Íslands gerir ráð fyrir austan átt í dag, 10-15 metrum á sekúndu, en 18-25 syðst á landinu og við Öræfajökul. Dálítil él austanlands, slydda eða snjókoma fram eftir degi á Suðausturlandi, en þurrt að kalla í öðrum landshlutum.

Austan og norðaustan 5-13 á morgun, en hvassara með suðurströndinni. Lítils háttar él um landið austanvert, en bjartviðri vestantil.

Frost 0 til 7 stig, en frostlaust syðst.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×