Helena Sverrisdóttir lék átján mínútur í sjö stiga sigri 71-64 Good Angels Kosice á Al Riyadi í Austur-evrópsku deildinni í körfubolta í kvöld.
Var þetta fyrsti heimaleikur hennar fyrir Good Angels eftir að hún sneri aftur til Slóvakíu en hún lék fyrsta leik sinn á útivelli á dögunum.
Helena leikur með liðinu út janúarmánuð en þá snýr hún aftur til Hauka í Dominos-deildina en hún varð slóvakískur meistari með liðinu tvö ár í röð, 2012 og 2013.
Helena hitti úr þremur af fjórum skotum sínum í leiknum ásamt því að taka þrjú fráköst og gefa tvær stoðsendingar. Fékk hún alls tíu framlagspunkta fyrir frammistöðuna sína.
Ekki nóg með það þá spilaði liðið töluvert betur með hana inn á vellinum (+11 á átján mínútum).
Helena með sjö stig í fyrsta heimaleiknum
Kristinn Páll Teitsson skrifar
