Lögreglan á Vesturlandi hefur til rannsóknar umfangsmikinn þjófnað á tölvubúnaði í Borgarnesi aðfaranótt 15. desember. Lýst var eftir blárri sendibifreið af gerðinni Volkswagen Transporter viku síðar, 22. desember.
Jónas H. Ottósson, rannsóknarlögreglumaður á Vesturlandi, segir að bifreiðin hafi fundist samdægurs. Tölvubúnaðurinn sé þó enn ófundinn.
Aðspurður hvort einhver hafi verið handtekinn vegna málsins vill Jónas sem minnst um það segja. Bíllinn verði rannsakaður en öðrum upplýsingum vilji lögregla halda fyrir sig á þessu stigi málsins.

