Innlent

Verst ef karlar fara í vörn eða fórnarlambshlutverk

Hulda Hólmkelsdóttir og Sunna Sæmundsdóttir skrifa
Rúmlega þrjú þúsund íslenskar konur hafa á síðustu dögum stigið fram og krafist þess að kynbundin mismunun og kynferðisleg áreitni á vinnustöðum verði upprætt. Fleiri konur hafa leitað sér hjálpar hjá Stígamótum síðan átakið hófst.

Konur úr læknastétt, réttarvörslukerfinu, fjölmiðlakonur, alþingiskonur, flugliðar og úr fleiri stéttum hafa nú stigið fram og krafist þess að kynferðislegt áreiti og mismunun á vinnustöðum þeirra verði upprætt undir merkjum metoo.

Saman eru þetta rúmlega þrjú þúsund konur. Framkvæmdastýra Stígamóta segir að umræðan hafi leitt til þess að fleiri konur hafa leitað hjálpar hjá Stígamótum og eins hafa nokkrir vinnustaðir sóst eftir fræðslu.

„Vinnustaðir og samfélög fólks hafa haft samband og óskað eftir að við kæmum og ræddum við þau. Þetta eru auðvitað óþægilegar afhjúpanir en í svona óþægindum eru alltaf tækifæri og ég helda að við ættum að skoða þau. Ég held að sem flestir ættu einmitt að gera það og halda starfsmannafundi, nemendafundi eða hvað það ætti að vera og setjast niður og spyrja hvað eigum við að gera,“ segir Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta.

Stígamót hafa þegar farið á nokkra vinnustaði þar sem atvik hafa komið upp en vegna anna hefur þurft að skipuleggja fleiri heimsóknir eftir áramót.

„Á einum stað var sagt: „hér eru karlarnir í áfalli vegna þess að þeim finnst þeir allir liggja undir grun.“ Sumir kvarta undan því að geta ekki klappað einhverjum eða tekið utan um einhvern. Ég held að við þurfum að vera meðvituð um það að við vitum öll hvenær snerting er viðeigandi og hvenær ekki.“

Hún telur boltann liggja hjá körlunum.

„Þetta er auðvitað karlavandamál og nú eiga karlar að láta til sín taka á ótal vegu. Það versta væri ef þeir fara í einhvers konar vörn eða fórnarlambshlutverk. Ég vona bara að við berum gæfu til þess öll að standa saman um að skapa nú samfélag virðingar og kærleika.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×