Erlent

Nefnd um félagslegt réttlæti segir af sér í Bretlandi vegna Brexit

Heimir Már Pétursson skrifar
Nefnd sem ætlað var að stýra aðgerðum til að auka jöfnuð og félagslegt réttlæti í Bretlandi hefur sagt af sér. Formaður nefndarinnar segir ríkisstjórn Theresu May gagntekna af útgöngu Breta úr Evrópusambandinu og þreklausa í að hrinda í framkvæmd loforðum sem forsætisráðherrann gaf þegar hún tók við völdum.

Þegar Theresa May tók við forsætisráðherraembættinu í Bretlandi fyrir átján mánuðum lofaði hún að ráðast gegn félagslegu óréttlæti í þjóðfélaginu. En margir þeirra sem greiddu atkvæði með því að Bretar yfirgæfu Evrópusambandið koma frá svæðum í Bretlandi þar sem atvinnuleysi er mikið og þar sem iðnaður ýmiss konar hefur dregist saman eða horfið. Stjórnmálamenn sem börðust fyrir úrsögn úr sambandinu kenndu Evrópusambandinu um hnignun atvinnulífs á þessum svæðum sem og óheftum aðgangi fólks annarra ríkja sambandsins að atvinnu í Bretlandi.

May skipaði fjögurra manna nefnd til að gera tillögur um aðgerðir á þessum svæðum en hún hefur nú öll sagt af sér. Alan Milburn formaður nefndarinnar segir ríkisstjórn May lamaða vegna Brexit.

„Það sem skortir hérna eru skilmerkilegar pólitískar aðgerðir til að yfirfæra mjög góð orð yfir í gerðir. Það sem skiptir máli í stjórnmálum er ekki það sem maður talar um heldur það sem maður gerir og ég er hræddur um að misskiptingin í Bretlandi sé að aukast. Félagslega og landfræðilega,“ segir Milburn.

Ríkisstjórn Theresu May sé algerlega upptekin af Brexit viðræðunum og virðist ekki hafa þrek til að gera nokkuð annað. En Íhaldsflokkurinn sem er þverklofinn í afstöðunni til Evrópu tapaði meirihluta sínum á þingi í kosningum síðastliðið sumar og þarf að reiða sig á stuðning Sambandsflokksins á Norður Írlandi. Milburn segir skorta á pólitíska forystu í Bretlandi.

„Það er ágætt að vera harður í Brexit-málinu en maður þarf líka að vera harður varðandi ástæður Brexit og það þýðir að það verður að taka á þessum málum á þessum svæðum sem eru skilinn eftir efnahagslega og holuð að innann félagslega. Ég er hræddur um að það gerist ekki af nógu miklum metnaði, af nógu mikilli vigt og á nógu miklum hraða,“ segir Milburn.


Tengdar fréttir

Bretar draga verulega úr hagvaxtarspám

Fjármálaráðherra Bretlands segir að óvissa og slöpp framleiðsla muni hafa mjög neikvæð áhrif á efnahag landsins á næstu árum.

Enn einn hnúturinn í Brexit-ferlinu

Ekki verður hægt að ræða um landamæragæslu á landamærum Írlands og Norður-Írlands fyrr en fríverslunarsamningar hafa náðst á milli Breta og ESB. Írar hóta hins vegar að beita neitunarvaldi gegn slíkum samningi.

Vill kjósa á ný um Brexit

Bankastjóri bandaríska stórbankans Goldman Sachs, Lloyd Blankfein, hefur á Twitter-síðu sinni hvatt til þess að haldin verði ný þjóðar­atkvæðagreiðsla í Bretlandi um Brexit, útgönguna úr Evrópusambandinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×