Körfubolti

30 stig á 30 mínútum hjá Curry og Westbrook með þrennu | Myndband

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Stephen Curry.
Stephen Curry. Vísir/Getty
Golden State Warriors vann auðveldan 123-95 sigur á Miami Heat á útivelli í NBA-deildinni í körfubolta í nótt en þetta var þriðji sigur liðsins í röð og sá 28. á tímabilinu.

Steph Curry var sjóðheitur og skoraði 30 stig á 30 mínútum en hann hitti úr fimm af níu þriggja stiga skotum sínum. Kevin Durant bætti við 24 stigum fyrir Golden State sem er í öðru sæti vesturins á eftir Houston Rockets.

Houston vann einmitt sjöunda leikinn í röð þegar að liðið pakkaði LA Lakers saman á útivelli, 118-95. Lakers-liðið er aðeins búið að vinna sex leiki af þrettán á heimavelli og er í ellefta sæti vesturdeildarinnar.

James Harden fór á kostum að vanda og skoraði 36 stig auk þess sem hann gaf níu stoðsendingar en Chris Paul skoraði 21 stig fyrir toppliðið í vestrinu.

Russell Westbrook hlóð svo í sjöundu þrennu sína á tímabilinu þegar að hann skoraði 22 stig, tók tíu fráköst og gaf tíu stoðsendingar í glæsilegum 90-87 sigri OKC gegn San Antonio Spurs á heimavelli.

Spurs er sem fyrr í þriðja sæti vesturliðsins en Thunder er í níunda sæti, búið að vinna tvo leiki í röð.

Úrslit næturinnar:

New York Knicks - Orlando Magic 100-105

Miami Heat - Golden State Warriors 95-123

OKC Thunder - San Antonio Spurs 90-87

Minnesota Timberwolves - LA Clippers 112-106

LA Lakers - Houston Rockets 95-118

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×