Lífið

Gamanferðabræður gefa Lödu Sport

Benedikt Bóas skrifar
Ótrúlegur fjöldi Íslendinga hefur tekið þátt í leik Gaman Ferða um að fá þessa forláta Lödu í bílastæðið sitt.
Ótrúlegur fjöldi Íslendinga hefur tekið þátt í leik Gaman Ferða um að fá þessa forláta Lödu í bílastæðið sitt.
„Við erum að gera mikið úr Lödunni,“ segir Þór Bæring, eigandi Gaman Ferða, en ferðaskrifstofan er byrjuð að kynna fyrirhugaðar ferðir til Rússlands í sumar og af því tilefni verður gefið eintak af Lödu Sport sem máluð hefur verið í felulitum.

Leikurinn byrjaði á þriðjudag og ljóst er að vinsældir Lödunnar eru ekkert að dvína hér á landi, miðað við fjölda þátttakenda í leiknum, en hægt er að skrá sig á Facebook-síðu ferðaskrifstofunnar. Ummælin skipta hundruðum.

Félagarnir Þór og Bragi hoppandi kátir með nýja bílinn og nýju merkingarnar.
Þótt bíllinn sem Gaman Ferðir gefa sé klassískur í útliti þá er stutt síðan rússneski bílaframleiðandinn Avtovaz, sem framleitt hefur Lada-bílana, kynnti þriðju kynslóð sportjeppans.

Þriðju kynslóðarinnar hefur verið beðið með töluverðri eftirvæntingu en framleiðslunni hefur verið frestað um tvö ár. Til stóð að hann kæmi á markað í fyrra en það verður ekki fyrr en á næsta ári. Nýi bíllinn verður í boði í þriggja og fimm dyra útgáfu og hann mun fá nýja og öflugri vél sem leysir af hólmi núverandi 1,7 lítra og 83 hestafla vélina.

Bíllinn mun aðeins fást beinskiptur og að sjálfsögðu fjórhjóladrifinn. Einnig kemur til greina að í boði verði dísilvél í bílnum sem ættuð er úr smiðju Renault. Þá hefur einnig heyrst að núverandi kynslóð Lada Sport verði áfram í boði þó svo að sú þriðja verði komin á markað.

Avtovaz hefur á síðustu árum kynnt nýju fólksbílana Vesta og Xray.

Ekki nóg með að gefa eitt stykki Lödu heldur er fyrirtækjabíll Gaman Ferða nú einnig nýmáluð Lada Sport sem þeir félagar munu nota fram á sumar.

Þór er nú staddur í Rússlandi en hann var viðstaddur þegar dregið var í riðla fyrir heimsmeistaramótið. „Við verðum með pakka á hvern einasta leik. Flug, gisting og ferðir til og frá flugvelli verða inni í pakkanum en fólk fær sína miða hjá FIFA. Við verðum með ferðir á alla þrjá leiki Íslands í riðlakeppninni og ef eftirspurnin verður meiri munum við bjarga fleiri flugvélum á þessa staði.“

Þessi Lada Sport er nú orðinn fyrirtækjabíll Gamanferða.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×