Erlent

Herja nú á ISIS í eyðimörkinn

Samúel Karl Ólason skrifar
Hermenn hafa þurft að eiga við jarðsprengjur og aðrar sprengjur sem vígamennirnir hafa skilið eftir sig.
Hermenn hafa þurft að eiga við jarðsprengjur og aðrar sprengjur sem vígamennirnir hafa skilið eftir sig. Vísir/AFP
Írakski herinn og sveitir vopnaðra sjálfboðaliða, sem kallast Popular Mobilisation Forces, hófu sókn sína gegn Íslamska ríkinu í strábýlli eyðimörk Írak. Vígamenn hryðjuverkasamtakanna hafa verið reknir frá öllum helstu bæjum og borgum landsins. Markmið aðgerðarinnar er að koma í veg fyrir að ISIS-liðar geti skotið niður rótum á svæðinu og notað það til þess að felast og undirbúa árásir.

Haider al-Abadi, forsætisráðherra Írak, segir að þó kalífadæmi ISIS hafi verið brotið á bak aftur, muni hann ekki lýsa yfir sigri gegn samtökunum fyrr en vígamennirnir hafi einnig verið reknir úr eyðimörkinni.

Samkvæmt frétt Reuters hefur herinn þegar hreinsað 77 smá þorp og um 5.800 ferkílómetra.

Abu Bakr al-Baghdadi, stjórnandi ISIS, er talinn vera í felum í eyðimörkinni á milli Sýrlands og Írak.

Hermenn hafa þurft að eiga við jarðsprengjur og aðrar sprengjur sem vígamennirnir hafa skilið eftir sig. Þegar herinn sækir að þorpum hafa þyrlur verið notaðar til stuðnings og munu þær hafa reynst vel gegn vígamönnum sem reyna að flýja undan hernum. Lítið sem ekkert skjól er í eyðimörkinni.

Sérfræðingar hafa varað við því að fall kalífadæmisins muni og jafnvel hafi leitt til þess að meðlimir samtakanna muni fara í felur og einbeita sér að skæruhernaði og hryðjuverkaárásum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×