Erlent

Útlit fyrir metlosun gróðurhúsalofttegunda á þessu ári

Kjartan Kjartansson skrifar
Menn hafa bætt í bruna á jarðefnaeldsneyti á sama tíma og þörf er á hröðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda.
Menn hafa bætt í bruna á jarðefnaeldsneyti á sama tíma og þörf er á hröðum samdrætti í losun gróðurhúsalofttegunda. Vísir/AFP
Losun manna á gróðurhúsalofttegundum stefnir í að vaxa á milli ára á þessu ári eftir tveggja ára stöðnun. Útblásturinn hefur aldrei verið meiri og útlit er fyrir að hann aukist áfram á næsta ári samkvæmt nýjum tölum sem kynntar voru á loftslagsfundi Sameinuðu þjóðanna í dag.

Aukning losunar á þessu ári stefnir í að verða 2% miðað við árið í fyrra. Hún verði um 37 milljarðar tonna af koltvísýringi samkvæmt mati Global Carbon Project sem Washington Post segir frá. Grein um matið birtist einnig í Environmental Research Letters.

Frá 2014 til 2016 hafði losunin haldist meira eða minna óbreytt í um 36 milljörðum tonna þrátt fyrir hagvöxt í heiminum. Það hafði vakið von í brjósti manna um að losunin hefði náð hámarki sínu. Nýja matið þýðir að enn erfiðara verður að ná markmiðum um að takmarka hlýnun jarðar á þessari öld til að forðast verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.

Orsök aukningarinnar nú er meðal annars meiri bruni Kínverja og fleiri þjóða á jarðefnaeldsneyti.

„Við höfum verið heppin að losunin hefur flast út síðustu þrjú árin án þess að nokkur raunveruleg stefna búi það að baki. Ef við viljum tryggja að losunin fletjist áfram út verðum við að móta stefnu...og annað skrefið er að byrja að minnka losunina,“ segir Glen Peters, einn af höfundum skýrslunnar frá Alþjóðlegu loftslagsrannsóknastofnunarinnar í Osló.

Til þess að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins um að halda hlýnun jarðar innan við 2°C, og helst 1,5°C, miðað við tímabilið fyrir iðnbyltingu þarf losun gróðurhúsalofttegunda að dragast hratt saman á allra næstu árum og áratugum. Því meiri sem losunin er nú, því róttækari aðgerðir þarf í framtíðinni til að minnka losun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×