„Ég held að geðheilbrigði sé vandamálið hér,“ sagði forsetinn þegar hann var spurður hvað gera ætti til að koma í veg fyrir árásir sem þessar, sem eru algengar í Bandaríkjunum. Hann sagði einnig að Bandaríkin, eins og önnur lönd, ættu við stórt slíkt vandamál að etja.
„Þetta er ekki byssumál. Við gætum farið nánar út í það, en það er svolítið snemmt. Sem betur fer var einhver annar einnig með byssu og skaut á móti árásarmanninum. Annars hefði þetta verið eins slæmt og það var. Það hefði verið mun verra. En, þetta er geðheilbrigðisvandamál á háu stigi. Þetta er mjög mjög sorglegur atburður. Þetta er frábært fólk og mjög mjög sorglegur atburður, en þetta er mín skoðun.“
Búið er að bera kennsl á árásarmanninn, Devin Kelley. Hann var 26 ára gamall og fyrrverandi meðlimur í flugher Bandaríkjanna. Hann var rekinn þaðan með skömm árið 2014 en árið 2012 hafði hann verið ákærður fyrir að ráðast á konu sína og barn.
Sjá einnig: Tvískinnungur Hvíta hússins varðandi árásir
Samkvæmt Washington Post liggja þó engar upplýsingar fyrir um hugarástand hans og geðheilsu.
Kelley flúði af vettvangi eftir að heimamaður skaut á hann og eltu vopnaðir heimamenn hann ásamt lögreglu. Kelley fannst látinn í bíl sínum en ekki er vitað hvort hann skaut sig sjálfur eða hvort hann var skotinn af almennum borgara.
Fjöldamorðið er er það versta í nútímasögu Texas og ein af verstu skotárásum Bandaríkjanna á undanförnum árum.
Samkvæmt frétt Guardian sagði þingmaðurinn Ken Paxton, nokkrum tímum eftir árásina, að kirkjur Bandaríkjanna ættu að vopnvæða söfnuði sína eða ráða öryggisverði. Því ljóst væri að þetta myndi gerast aftur. Þannig gætu vopnaðir kirkjugestir fellt árásarmenn áður en þeir fengju tækifæri á því að myrða mjög marga, eins og hann orðaði það.