Körfubolti

Næstum því hundrað stiga leikur hjá Harden

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
James Harden.
James Harden. Vísir/Getty
James Harden, leikmaður Houston Rockets í NBA-deildinni í körfubolta, bauð upp á magnaða og sögulega frammistöðu í NBA-deildinni síðustu nótt.

Það var ekki nóg með að þessi mikli skoraði 56 stig í 137-110 sigri á Utah Jazz heldur fann hann einnig leið til að gefa þrettán stoðsendingar á sama tíma.

Hann var aðeins annar leikmaður NBA-sögunnar sem nær að gefa þrettán stoðsendingar á sama tíma og hann kemst yfir 50 stiga múrinn.

Harden hitti úr 19 af 25 skotum sínum þar af 7 af 8 skotum sínum fyrir utan þriggja stiga línuna. Með öðrum orðum þá fór allt ofan í hjá honum.

Harden hefði kannski viljað skora eina körfu til viðbótar því félagsmetið hjá Houston Rockets á Calvin Murphy en það er 57 stig. Harden tekur það kannski seinna. Þetta var sjötti 50-stiga leikur Harden á NBA-ferlinum.

Sú tölfræði sem vakti þó mesta athygli er að Harden var nálægt því að búa til hundrað stig fyrir Houston Rockets liðið í leiknum. Alls kom hann að 91 stigi í leiknum sem er þriðja mesta í einum leik í NBA-sögunni.



Metið á enn Wilt Chamberlain frá því í 100 stiga leiknum hans en hann gaf þá einnig tvær stoðsendingar og kom að 104 stigum.

Harden á sjálfur annað sætið því hann kom að 95 stigum í sigri á New York Knicks á Gamlársdag 2016 en þá var hann með 53 stig og 17 stoðsendingar.

Hér fyrir neðan má sjá svipmyndir frá James Harden frá því í þessum leik hans á móti Utah Jazz síðustu nótt. Þess má geta að samkvæmt tölfræðinni þá var Utah Jazz með þriðju bestu vörnina í deildinni fyrir leikinn.





James Harden varð ennfremur fyrsti leikmaðurinn frá því að Michael Jordan gerði það árið 1987, sem nær að skora 55 stig með því að taka 25 eða færri skot. Jordan skoraði þá 58 stig en tók 25 skot.





NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×