Körfubolti

Hefði bara verið vandræðalegt að hitta Trump

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Kerr ásamt leikmönnum sínum.
Kerr ásamt leikmönnum sínum. vísir/getty
Leikmenn NBA-meistara Golden State Warriors voru ekki búnir að taka ákvörðun um hvort þeir ætluðu í Hvíta húsið er Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti að þeir yrðu ekki velkomnir þar.

Eftir að Warriors tryggði sér titilinn fór fljótlega af stað umræða um hvort liðið ætti að þiggja heimboð í Hvíta húsið sem öll meistaraliðin í stóru í íþróttunum í Bandaríkjunum fá.

Margir leikmanna liðsins höfðu gagnrýnt Trump harkalega og voru ekki spenntir fyrir því að fara.

„Við vorum búnir að ræða þetta nokkrum sinnum og áður en við tókum ákvörðun var Trump búinn að taka af skarið og segja að við mættum ekki koma,“ sagði Steve Kerr, þjálfari Warriors.

„Ég held samt að við hefðum ekki farið og Trump vissi það líklega. Margir okkar hafa gagnrýnt hann opinberlega og þetta hefði bara verið vandræðalegt.“

Warriors er að fara að spila við Washington Wizards þann 28. febrúar í Washington. Sá tími hefði líklega verið notaður í heimsókn í Hvíta húsið. Þó svo stefnan sé ekki tekin þangað ætla leikmenn að reyna að láta gott af sér leiða í höfuðborginni meðan þeir eru þar.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×