Fótbolti

Ísland fyrir ofan England og Kólumbíu á styrkleikalista fyrir HM

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Heimir Hallgrímsson trúir því að Ísland geti unnið HM. Og af hverju ekki?
Heimir Hallgrímsson trúir því að Ísland geti unnið HM. Og af hverju ekki? Vísir/Eyþór
Eins og kom fram í morgun eru 23 þjóðir búnar að tryggja sér farseðilinn á HM 2018 í Rússlandi sem hefst í júní á næsta ári en alls verða 32 þjóðir sem taka þátt.

Enski blaðamaðurinn Nick Ames, sem var hér á landi að fylgjast með Íslandi komast á HM, er búinn að setja upp styrkleikalista á vef The Guardian þar sem hann raðar niður liðunum 23 sem komin eru til Rússlands.

Þýskaland er að hans mati besta liðið en Brasilía í öðru sæti og þriðja liðið á styrkleikalistanum er Spánn. Frakkar eru í fjórða sæti og Belgar í því fimmta.

Virðingin fyrir íslenska liðinu er greinilega mikil eftir frábæran árangur strákanna okkar undanfarin misseri. Ísland er hvorki meira né minna en í tólfta sæti á styrkleikalistanum og er þar fyrir ofan stórþjóðir eins og England og Kólumbíu. Úrúgvæ er næsta þjóð fyrir ofan í ellefta sæti.

„Heimir Hallgrímsson, landsliðsþjálfari Íslands, trúir því að íslenska liðið mæti til leiks á HM með sömu væntingar um að vinna mótið eins og allir aðrir. Það dettur engum í hug að hlæja að því þessa dagana,“ segir í umsögn Ames um íslenska liðið.

„Íslenska liðið kláraði sinn riðil ískalt á meðan Króatía molnaði við endamarkið. Nú er bara spurningin hvort Íslandi geti náð sama árangri og á EM 2016 þar sem liðið komst í átta liða úrslit.“

„Það getur verið erfitt að greina Ísland því stundum er engin augljós leikáætlun en íslensku leikmennirnir njóta góðs af því að þekkja hvorn annan inn og út. Þeir hafa einnig gríðarlega trú á sjálfum sér en þessir tveir hlutir hafa skapað sigurformúlu. Við það bætist svo að Gylfi Sigurðsson getur unnið fyrir þá leiki en allt þetta gæti gert það að verkum að Ísland muni aftur ná árangri sem tekið verður eftir,“ segir Nick Ames um Ísland.

Hér má sjá allan styrkleikalistann á vef The Guardian.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×