Erlent

Duterte bregst við gagnrýni á fíkniefnastríðið

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rodrigo Duterte skar upp herör gegn fíkniefnum á Filippseyjum.
Rodrigo Duterte skar upp herör gegn fíkniefnum á Filippseyjum. Vísir/afp
Rodrigo Duterte, forseti Filippseyja, hefur bannað lögreglu landsins að taka þátt í stríðinu gegn fíkniefnum. Hann sætir æ meiri gagnrýni innanlands vegna hörku í stríðinu gegn fíkniefnum.

Forsetinn hefur verið undir miklum þrýstingi allt frá því að hann var kosinn en stefna hans er að taka eins hart og mögulegt er á fíkniefnasölum og smyglurum. Hingað til hefur forsetinn falið lögreglunni að ráðast gegn fíkniefnum í landinu en talið er að lögreglan hafi drepið meira en 3850 manns í aðgerðum gegn fíkniefnum.

Sjá einnig: Gaf lítið fyrir gagnrýni íslensku hræsnaranna

Þá hafa fjölmargir verið drepnir án dóms og laga auk þess sem saklaust fólk hefur látið lífið í átökum lögreglu og glæpagengja. Mannréttindasamtök hafa ítrekað gagnrýnt þær þúsundir aftaka sem framkvæmdar eru í landinu. Þannig geta lögreglumenn, sem og aðrir óbreyttir borgarar, tekið fólk af lífi fyrir það eitt að vera grunað um að hafa einhvern tímann neytt fíkniefna.

Ef marka má tölur stjórnvalda hafa um sjö þúsund manns verið drepnir í stríði Duterte gegn fíkniefnum í landinu frá því að hann tók við stjórnartaumunum í fyrra. Margir telja það varlega áætlað, nær væri að ætla að 13 þúsund hafi verið myrtir. Nú hefur þjóð forsetans risið á afturlappirnar og mótmælaalda hefur gripið Filippseyjar í sumar og í haust eftir að lögregla drap þrjá unglinga í aðgerðum sínum.

Þá hefur Kaþólska kirkjan, sem hefur mikil ítök í Filippseyjum fordæmt aðgerðir forsetans. Forsetinn hefur nú brugðist við gagnrýni og segir lögreglulið landsins spillt. Hann hefur nú dregið lögregluna úr öllum fíkniefnatengdum aðgerðum og hefur falið fíkniefnaeftirliti landsins að taka við því hlutverki.


Tengdar fréttir

Kirkjan fordæmir herferð Duterte

Kaþólska kirkjan á Filippseyjum fordæmdi í gær herferð forsetans Rodrigo Duterte gegn eiturlyfjafíklum, -sölum, -framleiðendum og -smyglurum. Herferðin hefur kostað að minnsta kosti 3.500 lífið og drepur lögregla grunaða án dóms og laga.

Syrgjendur mótmæla blóðugri herferð Duterte

Sautján ára drengur virðist hafa verið tekinn af lífi af lögreglumönnum á Filippseyjum. Hann er einn þúsunda manna sem liggja í valnum í blóðugu fíkniefnastríði Duterte forseta.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×