Körfubolti

Aðeins 7% telja að Golden State verði ekki meistari

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Golden State Warriors hefur orðið NBA-meistari tvisvar á síðustu þremur árum.
Golden State Warriors hefur orðið NBA-meistari tvisvar á síðustu þremur árum. vísir/getty
Golden State Warriors verður NBA-meistari næsta vor. Það er skoðun mikils meirihluta framkvæmdastjóra liðanna 30 í NBA-deildinni í körfubolta.

Alls 93% framkvæmdastjóranna telja að Golden State verji titilinn sem liðið vann á síðasta tímabili. Í 16 ára sögu þessarar skoðanakannanar hefur lið aldrei verið talið jafn sigurstranglegt og Golden State á komandi tímabili.

Aðeins 7% telja að Cleveland Cavaliers verði meistari á næsta tímabili. Framkvæmdastjórarnir telja hins vegar næsta víst (97%) að Cleveland vinni Austurdeildina fjórða árið í röð.

LeBron James verður valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins ef marka má spá framkvæmdastjóra liðanna í NBA-deildinni.vísir/getty
Helmingur framkvæmdastjóranna telur að LeBron James, leikmaður Cleveland, verði valinn verðmætasti leikmaður tímabilsins (MVP). Russell Westbrook sem var MVP á síðasta tímabili er ekki á meðal fimm efstu í spá framkvæmdastjóranna. Næstflestir þeirra (29%) spá því að Kevin Durant, leikmaður Golden State, verði valinn MVP í ár.

Karl-Anthony Towns hjá Minnesota Timberwolves er sá leikmaður sem flestir framkvæmdastjóranna (29%) myndu vilja fá til að byggja nýtt lið í kringum. Towns er líka talinn líklegastur (21%) til að slá í gegn í vetur. Framkvæmdastjórarnir (69%) spá því svo að Minnesota bæti sig mest á milli tímabila.

Lonzo Ball, leikstjórnandi Los Angeles Lakers, er talinn langlíklegastur (62%) til að vera valinn nýliði ársins.

Gregg Popovich er besti þjálfari NBA-deildarinnar að mati framkvæmdastjóranna.vísir/getty
Stephen Curry er talinn besti leikstjórnandi deildarinnar (62%), James Harden besti skotbakvörðurinn (83%), LeBron James besti litli framherjinn (61%), Anthony Davis besti kraftframherjinn (41%) og Karl-Anthony Towns besti miðherjinn (28%).

Langflestir (82%) eru á því að Gregg Popovich, þjálfari San Antonio Spurs, sé sá besti í deildinni.

Allar niðurstöður könnunarinnar má sjá með því að smella hér.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×