Skoðun

Uppgjör við Sjálfstæðisflokkinn

Kolbeinn Óttarsson Proppé skrifar
Enn á ný göngum við að kjörborðinu til að velja þá stefnu sem við teljum að best henti samfélaginu okkar og það fólk sem við viljum að fari fyrir henni. Við Vinstri græn teljum að stjórnmálaflokkar eigi að hafa sömu stefnu eftir kosningar og fyrir. Þannig lögðum við fram tillögur til breytinga á fjárlögum í desember sem miðuðu að því að bæta hag venjulegs fólks með aukinni samneyslu í samræmi við þau loforð sem stjórnmálaflokkar gáfu kjósendum fyrir síðustu kosningar. Þær voru því miður felldar. Okkur gefst nú einstakt tækifæri til að sýna í verki hver skoðun okkar er á stjórnarháttum Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn hefur meira eða minna haldið um valdataumana síðustu áratugi og skapað þá menningu samtryggingar og leyndarhyggju sem við getum nú gengið á hólm við. Og þegar Sjálfstæðisflokkurinn fer nú að tala um stöðugleika og nauðsyn þess að hafa styrka forystu, vil ég biðja ykkur að hafa í huga að síðustu þrjár ríkisstjórnir sem hann hefur átt aðild að hafa hrökklast frá völdum.

Komandi kosningar gefa okkur tækifæri til að sýna í verki að við viljum að samfélaginu sé stýrt á samfélagslegum forsendum. Við viljum útrýma fátækt, bæta hag þeirra sem verst standa, auka samneysluna og opna stjórnsýsluna. Við viljum samfélag jöfnuðar, þar sem hagur fólks er hærra metinn en tölur í excel-skjali.

Það þarf enginn að velkjast í vafa um hver er stefna fráfarandi stjórnarflokka, hún birtist í nýframlögðum fjárlögum og áður samþykktum fjármálaáætlun og fjármálastefnu. Sjálfstæðisflokkurinn, Viðreisn og Björt framtíð vilja minnka hlutfall samneyslunnar af vergri landsframleiðslu sem mun bitna á þeirri grunnþjónustu sem venjulegt fólk reiðir sig á. Sem betur fer sprakk stjórnin áður en hún náði fjárlagafrumvarpinu í gegn.

Besta leiðin til að tryggja nýja stjórnarhætti þar sem hagsmunir venjulegs fólks eru í fyrirrúmi er að kjósa flokk sem berst fyrir félagshyggju. Við í Vinstri grænum höfum sýnt það í verki að það gerum við. Tryggjum flokknum góða kosningu og undirbúum jarðveginn fyrir félagshyggjustjórn undir forystu Katrínar Jakobsdóttur.

 

Höfundur er þingmaður Vinstri grænna.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×