„Þetta er í þeim anda sem ég hef kynnt varðandi mína sýn á þetta, hvernig hægt er að koma þessu fyrir með öðrum hætti,“ segir Sigríður í samtali við Vísi.
Sigríður kynnti hugmyndir um breytingar á lögunum fyrst á opnum fundi sínum með allsherjar- og menntamálanefnd Alþingis í lok ágúst. Nokkrar starfstéttir krefjast þess að menn séu með óflekkað mannorð til að hljóta starfsréttindi. Sem dæmi má nefna lögmenn og þingmenn. Því er ljóst að breyta þarf fjölmörgum lagabálkum sem kveða á um að menn þurfi að hafa óflekkað mannorð til að geta gegnt ýmsum störfum og embættum, fari það svo að heimildin til að veita uppreist æru verði alfarið afnumin eins og Sigríður hyggst leggja til.
„Ég ætla að tala um að það sé í rauninni heppilegast að afnema alfarið heimildina til að veita uppreist æru en breyta um leið ákvæðum fjölmargra annarra laga er lúta að borgararéttindum. Þannig það sé gert skýrt í lögum með hvaða hætti menn öðlast aftur borgararéttindi. Það getur verið með mismunandi hætti á hverjum tíma. Þessi vinna hefur staðið yfir í ráðuneytinu og henni er ekki lokið. En ég mun á morgun leggja fram frumvarp sem er að mínu mati mikilvægt skref í þessa átt.“
Bjartsýn á samstöðu í málinu
Unnur Brá Konráðsdóttir, forseti Alþingis, hefur í vikunni fundað með formönnum þeirra flokka sem eiga sæti á Alþingi með það markmið að ákveða hvaða mál skuli tekin fyrir á Alþingi áður en gengið verður til kosninga þann 28. október. Aðspurð segist Sigríður bjartsýn á að menn komi sér saman um að afgreiða mál er varða uppreist æru.„Ég hef ekki heyrt annað en að það sé mikil og góð samsatða um það að það þurfi að breyta lögum og ákvæðum er varða uppreist æru. Þótt að ég hafi ekki, þrátt fyrir að hafa kallað nokkuð eftir því við þingmenn, að menn komi með sýnar hugmyndir þá hef ég ekki heyrt neinar tillögur en ég hef heldur ekki heyrt annað en ánægju með þá sýn sem ég hef kynnt,“ segir Sigríður.
„Þannig að ég á ekki von á öðru en það gæti náðst samstarfa um þetta skref nú fyrir kosningar. Ef menn á annað borð ætla að kalla saman þingfund. Sem er ekki sjálfgefið en ef menn ætla að gera það þá held ég að þetta sé það mál sem helst væri hægt að ná samstöðu um og ég tel að það væri ánægjulegt ef að þingið næði samstöðu um það.“