Öldungadeildarþingmaðurinn John McCain kallaði í dag eftir því að Bandaríkin myndu auka viðveru herafla síns í kringum Norður-Kóreu. Hann sagði að gera þyrfti Kim Jong-un, einræðisherra Norður-Kóreu, grein fyrir því að ef Norður-Kórea myndi grípa til árás yrði þeim útrýmt.
Meðal þess sem þingmaðurinn kallaði eftir var að auka eldflaugavarnir og annars konar varnargetu í kringum Norður-Kóreu og beita Kína meiri þrýstingi. Einnig ætti að skoða hvort koma ætti kjarnorkuvopnum aftur fyrir í Suður-Kóreu.
„Varnarmálaráðherra Suður-Kóreu talaði fyrir nokkrum dögum um að flytja kjarnorkuvopn til landsins. Það ætti að skoða það að alvöru,“ sagði McCain í sjónvarpsviðtali á CNN í kvöld.
Norður-Kóreu hefur á undanförnum vikum og mánuðum gert fjölmargar tilraunir með eldflaugar og þar á meðal eldflaugar sem talið er að gætu drifið til meginlands Bandaríkjanna. Þá var sprengd sprengja í Norður-Kóreu um síðustu helgi, sem yfirvöld í Pyongyang segja að hafi verið vetnissprengja. Þeir segjast enn fremur geta komið slíkri sprengju fyrir í langdrægri eldflaug.
Spennan á Kóreuskaganum hefur aukist verulega og hafa hótanir gengið á víxl yfir Kyrrahafið.
Varar Norður-Kóreu við „útrýmingu“
Samúel Karl Ólason skrifar
