Körfubolti

Starbury vill enda ferillinn í NBA 40 ára gamall

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Stephon Marbury.
Stephon Marbury. Vísir/Getty
Bandaríski körfuboltamaðurinn Stephon Marbury hrökklaðist úr NBA-deildinni fyrir átta árum síðan en hefur síðan slegið gegn í Kína.

Marbury lék í NBA-deildinni í þrettán ár en hefur ekki spilað þar síðan tímabilið 2008-09. Nú vill hann hinsvegar fá annað tækifæri og það þrátt fyrir að vera orðinn fertugur.

Stephon Marbury hóf herferð sína fyrir endurkomu í NBA á samfélagsmiðlinum Instagram og þar var ekki að heyra annað en hann væri fullviss um það að eitthvert NBA-liðanna myndi gefa honum tækifæri.

Stephon Marbury er í miðju tímabili með Beijing Fly Dragons í Kína en því líkur ekki fyrr en í lok febrúar eða í mars. Marbury hefur óskað eftir að fá að spila þá síðustu mánuðina á NBA-tímabilinu.  Hann ætlar síðan að leggja skóna upp á hillu í sumar.

„Ég hef talað við lið. Þetta er allt á frumstigi en ég er opinn fyrir því að koma aftur og taka að mér leiðtogahlutverk,“ sagði Stephon Marbury í viðtali við Associated Press. New York Post segir frá.

Stephon Marbury lék í NBA frá 1996 til 2009 og var með 19,3 stig og 7,6 stoðsendingar að meðaltali í leik. Hann lék með Timberwolves, Nets, Suns, Knicks og Celtics.

Undanfarin níu ár hefur hann spilað í Kína og hefur þrisvar sinnum orðið kínverskur meistari með Beijing Ducks.

Stephon Marbury var kannski þekktastur fyrir stjörnustæla sína og margir hafa viljað kallað hann „Starbury“. Hann hefur staðið undir því nafni inn á vellinum í Kína.

Hvort að hann geti snúið til baka fertugur og spilað við bestu körfuboltamenn heims í NBA er hinsvegar önnur saga. Marbury hefur í það minnsta vakið mikla athygli á sér í bandarísku pressunni.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×