Ríkisfréttastofa Norður-Kóreu, KCNA, gaf í dag út ljósmyndir af leiðtoga einræðisríkisins, Kim Jong-un, þar sem hann sást yfirfara nýja vetnissprengju, að því er fréttastofan fullyrðir. Þetta hefur þó ekki fengist staðfest af óháðum aðilum.
„Stofnuninni [sem þróar kjarnavopn Norður-Kóreu] tókst nýlega að smíða háþróaðra kjarnavopn en gert hefur verið hingað til,“ segir í fréttinni. „Hann (Kim Jong-un) fylgdist með því þegar vetnissprengja var sett inn í nýja langdræga eldflaug (ICMB).“
Kim Jong Un with the purported "homemade" H-bomb. #DPRK #nuclear pic.twitter.com/CFAUd7iWiM
— Steve Herman (@W7VOA) September 2, 2017
Sérfræðingar eru flestir sammála um að Norður-Kórea hafi tekið miklum framförum í þróun á kjarnavopnum sínum á síðustu mánuðum og árum. Enn er þó óljóst hvort yfirvöldum hafi tekist að þróa vopn sem hægt er að festa á eldflaug.
Norður-Kórea hefur lengi haft það að yfirlýstu markmiði að koma fyrir svokölluðum „kjarnaoddi“ á langdræga eldflaug sem næði til skotmarka um allan heim.
Nýjasta vopnatilraun Norður-Kóreu var gerð í síðustu viku þegar eldflaug var skotið yfir Japan. Sú eldflaug er talin sú fyrsta í vopnabúri Norður-Kóreu-manna sem gæti mögulega borið kjarnaodd.