Erlent

Ógninni verði svarað með umfangsmiklum hernaðaraðgerðum

Kristín Ólafsdóttir skrifar
James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna ræddi við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag vegna nýjustu vopnatilraunar Norður-Kóreu.
James Mattis varnarmálaráðherra Bandaríkjanna ræddi við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag vegna nýjustu vopnatilraunar Norður-Kóreu. Vísir/afp
Allri ógn við öryggi Bandaríkjanna og bandamanna þeirra verður mætt með „umfangsmiklum hernaðaraðgerðum.“

Þetta er haft eftir varnarmálaráðherra Bandaríkjanna James Mattis í kjölfar fundar Donalds Trump Bandaríkjaforseta við þjóðaröryggishóp Bandaríkjanna í dag. Fundað var vegna nýjustu vopnatilraunar Norður-Kóreu sem talin er sú öflugasta hingað til.

Mattis ræddi við blaðamenn fyrir utan Hvíta húsið í dag og sagði Bandaríkin hafa alla burði til að verja sig og bandamenn sína, Suður-Kóreu og Japan. Þá bætti hann við að skuldbindingar Bandaríkjanna þess efnis væru „óhagganlegar.“

„Ógn við Bandaríkin eða sjálstjórnarumdæmi þeirra, þar á meðal Guam, eða bandamenn okkar verður mætt með umfangsmiklum hernaðaraðgerðum, aðgerðum sem munu bæði skila árangri og reynast yfirgnæfandi.“

Hernaðaryfirvöld Norður-Kóreu tilkynntu í byrjun þessa mánaðar að þau íhuguðu nú að skjóta eldflaugum í átt að herstöðvum Bandaríkjanna í Guam.

Sjá einnig: Trump um aðgerðir Norður-Kóreu: „Þeir skilja bara eitt“

Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt vetnissprengju í tilraunaskyni en sprengjan var sú öflugasta sem einræðisríkið hefur sprengt til þessa. Þá segja yfirvöld í Norður-Kóreu að hægt verði að festa sprengjuna á langdræga eldflaug.

Donald Trump Bandaríkjaforseti íhugar nú meðal annars að skera á viðskiptasambönd Bandaríkjanna við þau lönd sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu.


Tengdar fréttir

Langöflugasta sprengjan hingað til

Vetnissprengjan sem Norður-Kóreumenn sprengdu í nótt var um það bil tíu sinnum öflugri en nokkuð annað kjarnorkuvopn sem ríkið hefur gert tilraunir með.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×