Körfubolti

Martin: Það er hans verkefni að pæla í því

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Martin Hermannsson.
Martin Hermannsson. Mynd/FIBA
Martin Hermannsson og félagar hans í íslenska körfuboltalandsliðinu hafa tapað þremur fyrstu leikjunum stórt á Evrópumótinu í Helsinki og fá nú bara tvo leiki til viðbótar til að landa fyrsta sigri Íslands á Eurobasket.

Íslensku strákarnir stóðu sig mjög vel í fyrri hálfleik á móti einu besta liði heims en átti ekki svar þegar Frakkar gáfu í eftir hálfleikinn.

„Frakkar eru bara með hrikalega gott lið. Þetta var erfitt en það var geggjað að sjá fyrri hálfleikinn og hvað við getum gert. Ef allt er að falla með okkur þá erum við bara drullugóðir,“ sagði Martin eftir leikinn.

„Ég vil fá að breyta þessum leiktíma í 20 mínútur þá værum við heltvíti flottir á þessu móti,“ sagði Martin í léttum tón.

Martin var með 13 stig og 3 stoðsendingar á móti Frökkum í gær. Hann hefur skorað 11,3 stig að meðaltali í leik á mótinu.

Íslenska liðið á frídag í dag en hvað verður gert til að undirbúa liðið fyrir Slóveníuleikinn á morgun?

„Ég ætla bara að hlusta á þjálfarann. Það er hans verkefni að pæla í því. Ég pæli bara í því hvað ég get gert betur en það er undir þjálfurunum komið hverju við ætlum að breyta,“ sagði Martin.

„Eins og Hössi (Hörður Axel Vilhjálmsson) sagði í einhverju viðtali þá skiptir það engu máli hvort þú tapaðr með 1 eða 30. Það er alltaf leiðinlegt að tapa en okkur langar svo að vinna. Þetta er orðið svolítið fúlt að vera alltaf að tapa leik eftir leik og svona stórt líka,“ sagði Martin.

Fyrsta skrefið væri að vera eitthvað inn í leikjunum í seinni hálfleiknum en þriðji leikhlutinn hefur klárað alla leikina til þessa.

„Við höfum ekkert verið inn í spennuleikjum. Við viljum hafa þetta spennandi og við þurfum greinilega að leggja okkur ennþá meira fram ef það er hægt,“ sagði Martin.


Tengdar fréttir

Tilfinningar sem við höfum ekki fundið fyrir áður

Jón Arnór Stefánsson átti flottan leik gegn Frökkum í gær en það dugði skammt gegn einu besta liði heims. Jón segir að íslenska liðið hafi aldrei upplifað svona vonbrigði áður sem lið eins og að steinliggja á móti Pólverjum á laugardaginn. Jón vill njóta leikjanna sem eftir eru en gætu þeir verið hans síðustu fyrir landsliðið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×