„Bandaríkin sækjast aldrei eftir stríði. Við viljum ekki stríð núna, en þolinmæði ríkis okkar er ekki endalaus,“ sagði Haley. Hún sagði einnig nauðsynlegt að nýta allar pólitískar leiðir sem hægt væri til að stöðva vopnaáætlun Norður-Kóreu og gera það eins fljótt og auðið væri.
Stjórnvöld Norður-Kóreu segist hafa sprengt vetnissprengju neðanjarðar í gær og er það í sjötta sinn sem kjarnorkusprengja er sprengd þar í tilraunaskyni. Þá hefur ríkið skotið fjölmörgum eldflaugum á loft í trássi við ályktanir Sameinuðu þjóðanna og öryggisráðsins.
„Norður-Kórea hefur storkað öryggisráðinu í tuttugu ár,“ sagði Haley, samkvæmt frétt BBC.
Íhuga að stöðva viðskipti
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur sagt að til greina komi að hætta öllum viðskiptum við ríki sem eiga í viðskiptum við Norður-Kóreu og Haley ítrekaði þau skilaboð forsetans.
„Bandaríkin munu líta á öll þau ríki sem eiga viðskipti við Norður-Kóreu sem ríki sem styðja hættulegar kjarnorkuvopna- og eldflaugaáætlanir þeirra.“
Kína er það ríki sem á í langmestu viðskiptum við Norður-Kóreu, þó þau hafi dregist töluvert saman að undanförnu. Talsmaður utanríkisráðuneytis Kína segir þá stöðu Trump vera ósanngjarna gagnvart þeim.
„Það sem er óásættanlegt frá okkar dyrum séð er að á meðan við erum að vinna hörðum höndum að því að leysa þetta mál á friðsaman hátt, er verið að ráðast gegn hagsmunum okkar og þeim ógnað með refsiaðgerðum,“ sagði Geng Shuang, samkvæmt frétt ABC News.
Bandaríkin flytja inn vörur frá Kína fyrir um 40 milljarða dala í hverjum mánuði.
Íhuga að koma kjarnorkuvopnum fyrir
Mikil spenna ríkir á Kóreuskaganum og hefur hún aukist verulega á síðustu vikum. Yfirvöld í Suður-Kóreu segja líklegt að Norður-Kórea muni skjóta annarri eldflaug á loft á næstunni og að sú eldflaug gæti mögulega verið langdræg eldflaug sem gæti flogið til Bandaríkjanna.
Þá sagði varnarmálaráðherra Suður-Kóreu í dag að til greina kæmi að biðja Bandaríkin um að koma kjarnorkuvopnum fyrir þar í landi. Samkvæmt frétt Washington Post hafa sérfræðingar varað við því. Þeir segja að yrði sú ákvörðun tekin myndu líkurnar á átökum aukast verulega.
Nikki Haley on North Korea: "We have kicked the can down the road long enough. There is no more road left." https://t.co/t7YxAvM3zH
— NBC News (@NBCNews) September 4, 2017