Hannes Þór var í spjalli í Brennslunni á FM 957 í morgun og rifjaði þá upp fyrsta mótsleik sinn í byrjunarliði á Laugardalsvelli.
„Það var árið 2011 og við vorum að spila við Kýpur,“ sagði Hannes en rúmlega fimm þúsund manns voru á leiknum. Það var uppselt í gær eins og vaninn er núorðið á heimaleikjum íslenska landsliðsins.
„Breytingin úr því og í það sem við höfum núna er ólýsanleg. Enda er Laugardalsvöllur orðið algjört vígi og við elskum að spila þar - þó svo að hann sé ekki fullkominn knattspyrnuleikvangur.“
„Okkur líður vel þarna og það er út af stemningunni sem hefur myndast, enda er alltaf uppselt. Menningin á landsleikjum hefur líka gerbreyst - áður var þetta eins og að fara í bíó en nú taka allir þátt í leiknum.“
Viðtal þeirra Hjörvars Hafliðasonar og Kjartans Atla Kjartanssonar við Hannes Þór má sjá hér fyrir neðan.