„Ég er mjög spenntur. Ferðalagið er búið að vera fínt og nú er bara komið að stóru stundinni,“ segir Kristófer. Hann fékk ekki leyfi hjá skólanum sínum til að vera með fyrir tveimur árum en nokkrum mánuðum fyrr hafði hann stigið sín fyrstu skref með landsliðinu og staðið sig vel. Það má því næstum því bóka það að hann hefði verið í hópnum á EM í Berlín 2015 ef forráðamenn Furman-skólans hefðu sýnt meiri skilning.
„Þetta er fyrsta stórmótið mitt. Ég sat bara í skólastofunni og fylgdist með Eurobasket í beinni fyrir tveimur árum. Að fá að vera með núna í öllu ferðalaginu, æfingunum og leikjunum er ólýsanlegt,“ segir Kristófer.

Íslenska liðið er byggt á kjarna sem er búinn að spila lengi saman í landsliðinu en Kristófer og fleiri eru að koma sterkir inn. „Við erum aðeins að yngja þetta upp,“ segir Kristófer í léttum tón en bætti svo við: „Gömlu mennirnir eru búnir að ryðja veginn fyrir okkur og hækka slána. Við ungu strákarnir komum bara inn og erum æstir, graðir og spenntir fyrir því að spila og gera vel.
Ég ætla að koma inn með orku og reyna að gera það sem ég get best. Ég ætla mér að hjálpa liðinu með öllum þeim hlutum sem ég gert sjálfur. Svo ætlum við að spila saman því að enginn vinnur þetta einn og sér. Ef við spilum fimm og allir tólf saman þá eigum við að geta gert góða hluti á þessu móti,“ segir Kristófer. Liðið er einn stór vinahópur og það er mjög góður andi yfir öllu.
„Þetta er eins og lítil fjölskylda. Við vorum búnir að vera saman tvö sumur í röð, með svipað lið og svipaðan æfingahóp líka. Við erum því farnir að þekkja frekar vel hver inn á annan. Við erum mjög mikið saman alla daga og æfum tvisvar á dag. Svo erum við líka að ferðast saman og allt þannig,“ segir Kristófer en hann bætir svo við:
„Ef við verðum ekki komnir með ógeð hver á öðrum eftir þetta mót þá veit ég ekki hvað. Það er bara það góða við þetta að við erum farnir að þekkja hver annan innan vallar sem utan og höfum myndað þessi tengsl. Það hjálpar okkur mikið.”

Ein tölfræði sem ætti að hækka við komu Kristófers og Tryggva Snæs Hlinasonar í liðið er fjöldi troðsla hjá íslenska liðinu.
„Maður er að taka við af Hlyn og þeim í troðslunum,“ grínast Kristófer en landsliðsfyrirliðinn Hlynur Bæringsson er ekki þekktur fyrir að troða boltanum í körfuna í leikjum. Kristófer stefnir á að gleðja fjölda íslenskra stuðningsmanna með flottum tilþrifum á Evrópumótinu. „Ég verð að reyna að henda í einhverjar troðslur. Það er kannski auðveldara fyrir jafn stóran mann og Tryggva að henda í troðslur en ég verð að fá eitthvað líka,“ segir Kristófer brosandi.
Sýna sig og sanna
Kristófer Acox er nú kominn heim eftir fjögurra ára nám í Furman-skólanum og varð Íslandsmeistari í fyrsta sinn með KR í vor. Nú nokkrum mánuðum síðar er hann að fara að spila sinn fyrsta leik á Eurobasket.
„Maður setur sér markmið og vill uppskera. Þegar maður er kominn á svona stórt svið þá vill maður að fólk taki eftir sér. Ég verð bara að koma inn, spila af ákveðni og hafa sjálfstraust,“ segir Kristófer en þetta er líka spurning fyrir hann að sýna sig og sanna því stefnan er sett á það að komast að hjá sterku erlendu félagi í framtíðinni.
„Vera líka til í þetta. Maður er kominn á stórmót. Það þýðir ekkert að fara út á völl og vera feiminn eða eitthvað hræddur. Þetta er bara leikur en á það stóru sviði að maður vill láta taka eftir sér,“ sagði Kristófer að lokum.