Martin Hermannsson verður í enn stærra hlutverki með íslenska landsliðinu í Helsinki en fyrir tveimur árum. Framundan er fyrsti leikurinn á móti Grikkjum í dag.
„Ég er mjög spenntur og á seinustu tveimur árum eru mínútur mínar í leikjunum alltaf að verða fleiri og fleiri. Ég nýtti fyrsta árið mitt í atvinnumennsku mjög vel í að þroskast sem leikmaður og verða yfirvegaðri. Ég er mjög spenntur að fá stærra hlutvek og tel mig tilbúinn í það," sagði Martin í samtali við Arnar Björnsson.
Þú ert búinn að bæta þig á öllum sviðum en er það einhver þáttur sem þú hefur ekki bætt þig?
„Það er alltaf hægt að bæta sig og maður getur alltaf orðið betri á öllum sviðum leiksins. Það er alltaf hægt að bæta sig varnarlega. Ég legg mesta áherslu á að bæta varnarleikinn á hverri æfingu“. En þú ert nú skruggugóður varnarmaður samt? „Já ég er fljótur á fótunum en á móti þessum stóru gaurum þarf maður að finna einhverja aðra aðferð til þess að verjast en maður lifir og lærir," sagði Martin
Martin var spurður um samanburðinn á liðinu núna og fyrir tveimur árum í Berlín. „Ég tel að það hafi verið erfiðara að velja liðið núna. Með komu Tryggva þá breytist leikur okkar aðeins. Við þurfum að laga leik okkar að honum og hann að aðlagast okkur hinum. Ég held að við séum með töluvert betra lið en síðast. Við finnum það allir, pressan er meiri núna að vinna leik og vonandi tekst það," sagði Martin
Er það þess virði að standa í þessu, bíða á hóteli eftir því að flautað verði til leiks?
„Þetta er bara orðinn partur af manni. Ég er búinn að gera þetta í svo mörg ár og kann ekki við að vera ekki í jogging galla og á inniskóm. Jú þetta venst vel og spennan og fiðringurinn eykst með hverri mínútunni. Áður en maður veit af er þetta bara búið. Maður má ekki gleyma sér og verður að njóta þess að vera með strákunum. Svo sér maður þá ekki fyrr en eftir eitt ár," sagði Martin
Er hægt að fara að sofa í kvöld, verður menn ekki bara yfirspenntir? „Jú það verður allavega góður fiðringur í kvöld en maður þarf að læra að höndla hann. Sérstaklega eftir að hafa gert þetta áður að þá er það aðeins auðveldara. Það var rosalega erfitt seinast að fara að sofa því maður var allur uppspenntur og titrandi fyrir leikina. Núna er þetta aðeins rólegra og maður veit hvað maður er að fara útí. Það hjálpar," sagði Martin að lokum.
