Frábær annar leikhluti, sem íslenska liðið vann með tólf stigum (23-11) sýndi hins vegar hvað strákarnir geta gert þegar þeir ná sínum takti. Vörnin á hálfum velli gekk líka vel lengstum en Grikkir smjöttuðu á mistökum strákanna sem sést vel á því að þeir skoruðu 22 hraðaupphlaupsstig gegn 2 í leiknum og voru alls með 31 stig í kjölfarið á töpuðum boltum íslenska liðsins.
Martin Hermannsson hefur verið aðalmaðurinn í sóknarleik liðsins í lokaundirbúningnum ekki síst vegna fjarveru Jóns Arnórs Stefánssonar og Hauks Helga Pálssonar vegna meiðsla. Sú staðreynd fór ekkert fram hjá Grikkjunum sem gerðu Martin lífið leitt allan leikinn.

„Haukur var sá eini af okkur sem spilaði á pari. Það eru margir í liðinu sem eiga mikið inni og þá sérstaklega ég. Ég er hundsvekktur út í sjálfan mig og er staðráðinn í að koma tvö hundruð prósent til baka á laugardaginn,“ sagði Martin eftir leik.
„Þeir vissu alveg hvað þeir ætluðu að gera og ég fann það strax í byrjun þegar þeir voru byrjaðir að gefa olnboga og voru ekkert að hjálpa mér. Þeir gerðu vel og ég gef þeim kredit fyrir það. Ég þarf að vera klókari og ég hef nægan tíma til að hugsa um það fyrir laugardaginn,“ sagði Martin. Hann fékk nú að kynnast því sem Jón Arnór Stefánsson hefur oft lent í. Grikkir voru búnir að skoða hann vel og lögðu ofurkapp á að stoppa „fljótandi“ leik hans. Jón Arnór hefur ekki áhyggjur af Martin.
„Martin þarf bara að finna út úr því og hann gerir það. Hann er hörku góður og hefur sýnt það. Hann þarf bara stíga upp í sínum leik eins og við allir. Við þurfum að finna grúvið okkar því það er þarna. Við eigum alveg helling inni og það er það eina sem maður er svolítið daufur með því við getum svo miklu miklu betur. Við náðum ekki alveg að sýna það í dag nema í þennan stutta tíma,“ sagði Jón Arnór og vísar þar til annars leikhlutans.
Martin var næststigahæstur í íslenska liðinu á eftir Hauki ásamt fjórum öðrum en allir skoruðu þeir sjö stig.
„Það voru alltof mikið af töpuðum boltum og hraðaupphlaupum í kjölfarið. Það er rosalega dýrt fyrir okkur sérstaklega því við megum ekki gefa svona mikið af svona auðveldum körfum,“ sagði Martin. Hann faldi sig ekki fyrir sinni ábyrgð enda með sex tapaða bolta. Hræðileg þriggja stiga skotnýting var ekki heldur að hjálpa mikið (2 af 23, 9 prósent).
„Það er mjög gott að vita af því að Haukur var sá eini sem var að gera eitthvað sóknarlega en samt erum við inn í leiknum fram í þriðja leikhluta. Ef allir ná að smella á laugardaginn þá getur allt gerst," sagði Martin að lokum.