Síðast sást til sænsku konunnar Kim Wall á lífi fimmtudaginn 10. ágúst þegar hún lagði af stað í ferð með danska uppfinningamanninum Peter Madsen í heimasmíðuðum kafbát frá Kaupmannahöfn.
Wall hefur verið leitað síðan, en greint var frá því í gær að Madsen hafi viðurkennt fyrir lögreglu og dómara að hafa varpað líki Wall fyrir borð. Segir hann að slys hafi orðið um borð í kafbátnum sem leiddi til dauða Wall.
Búkur af sundurlimuðu líki fannst í gær í Kögeflóa sem talið er að gæti verið Wall. Kaupmannahafnarlögreglan hefur boðað til blaðamannafundar síðar í dag þar sem hún mun greina nánar frá líkfundinum og rannsókn málsins.
Atburðarásin í þessu hörmulega máli hefur um margt verið reyfarakennd en sænska og danska ríkissjónvarpið hafa tekið saman hvernig málinu hefur undið fram.

10. ágúst (fimmtudagur)
• Sænska blaðakonan Kim Wall er stödd um borð í kafbátnum UC3 Nautilus ásamt eigandanum Peter Madsen. Hún ætlar sér að skrifa grein um bæði kafbátinn og eigandann. Síðast sést til hennar í Kaupmannahöfn um klukkan 19:30 að staðartíma.
11. ágúst (föstudagur)
• Um klukkan 2:30 hefur kærasti Wall samband við lögreglu þar sem kafbáturinn hefur ekki snúið aftur til hafnar í Kaupmannahöfn. Klukkan 3:39 um nótt berst lögreglu tilkynning um sjóslys.
• Snemma morguns hefst leit að kafbátnum þar sem bæði sænski og danski sjóherinn tekur þátt.
• Klukkan 10:30 finnst kafbáturinn í Kögeflóa. Samband næst við eigandann Peter Madsen sem segist vera á leið aftur til hafnar. Greint er frá því að öllum um borð í bátnum líði vel.
• Klukkan 11 sekkur kafbáturinn skyndilega. Björgunarliði tekst að bjarga Madsen en Wall er hvergi sjáanleg. Rætt er við Madsen sem til að byrja með er ekki grunaður um brot.
• Klukkan 13:30 greinir lögregla frá því að kafarar ætli sér að reyna að komast inn í kafbátinn. Það tekst ekki.
• Klukkan 17:44 er greint frá því að Madsen sé grunaður um morð eða manndráp. Hann neitar sök og fullyrðir að hann hafi hleypt Wall frá borði á Refshaleøen klukkan 22:30 kvöldið áður.
12. ágúst (laugardagur)
• Skömmu fyrir klukkan 10 á laugardagsmorgninum er byrjað að hífa kafbátinn upp af hafsbotni.
• Síðdegis er Madsen færður fyrir dómara þar sem krafa um gæsluvarðhaldsúrskurð er tekin fyrir fyrir luktum dyrum.
Sjá einnig: Brotlending hins danska Geimflauga-Madsen
• Madsen er úrskurðaður í 24 daga gæsluvarðhald vegna gruns um að verið valdur að dauða Wall.
• Um kvöldið er kafbáturinn færður til Nordhavnen í Kaupmannahöfn.

13. ágúst (sunnudagur)
• Snemma að morgni sunnudagsins er kafbáturinn tæmdur af vatni og tæknimenn lögreglu halda ofan í bátinn.
• Klukkan 11:30 greinir lögregla frá því á blaðamannafundi að enginn hafi fundist í kafbátnum. Litið sé á bátinn sem vettvang mögulegs glæps og vill lögregla meina að bátnum hafi verið sökkt að ásettu ráði. Madsen segir bátinn hins vegar hafa sokkið vegna bilunar í kjölfestutanki.
• Lögregla leitar Kim Wall á landi, til sjós og úr lofti.
14. ágúst (mánudagur)
• Lögregla í Kaupmannahöfn segist ekki útiloka að Wall hafi farið frá borði erlendis, til dæmis í Þýskalandi.
• Lögmaður Madsen segir að skjólstæðingur sinni ætli sér ekki að áfrýja gæsluvarðhaldsúrskurðinum. Hann neitar þó áfram sök.
16. ágúst (miðvikudagur)
• Lögregla segir Madsen nú vera grunaðan um að hafa verið valdur að dauða Wall vegna sérstaks gáleysis.
17. ágúst (fimmtudagur)
• Lögregla greinir frá því að hún leiti nú látinnar manneskju. Fyrst og fremst sé leitað í Kögeflóa.
19. ágúst (laugardagur)
• Helsingör Dagblad fullyrðir að Madsen hafi ætlað sér að „laga eitthvað“ í bátnum skömmu áður en hann sökk.
21. ágúst (mánudagur)
• Kaupmannahafnarlögreglan greinir frá því að Madsen hafi viðurkennt að hafa varpað líki Wall fyrir borð. Segir hann að Wall hafi látið lífið eftir slys um borð.
• Hjólreiðamaður hjólar fram á búk við strendur Kögeflóa. Búið er að saga höfuð, hendur og fætur af búknum. Lögregla rannsakar hvort að búkurinn sé af Kim Wall.