Það eru ekki alltof góðar fréttir úr herbúðum Grikkja innan við viku fyrir leik á Eurobasket sem verður á móti Íslandi í Helsinki á fimmtudaginn kemur.
Áður hefur komið fram að NBA-stórstjarnan Giannis Antetokounmpo getur ekki spilað með gríska liðinu vegna meiðsla en það eru líka innanbúðarátök að trufla liðið.
Ioannis Bourousis og Nikos Pappas eru báðir í EM-hópi Grikkja í ár og þeir eru einnig fyrrum liðsfélagar hjá Panathinaikos.
Það sauð upp úr á milli þeirra á liðshóteli Grikkja í vikunni þar sem þeir létu báðir hnefana tala og fóru hreinlega að slást. Gríski vefmiðillinn Sport24 sagði frá þessu.
Skotbakvörðurinn Giannoulis Larentzakis reyndi að ganga á milli þeirra en meiddist við það á auga og tókst þeim félögum því að gera vonda stöðu enn verri.
Atvikið þykir hafa verið mjög alvarlegt en það fylgir sögunni að ósætti þeirra tengjast ekki körfubolta.
Ioannis Bourousis er 33 ára gamall og 215 sentímetra miðherji sem er nýbúinn að semja við kínverska félagið Zhejiang Lions.
Nikos Pappas er sex árum yngri og 20 sentímetrum minni en Bourousis. Pappas spilar sem skotbakvörður og er ennþá leikmaður Panathinaikos. Bourousis lék með Panathinaikos í eitt tímabil (2016-17).
Ísland mætir Grikklandi í fyrsta leik sínum á EM í Helsinki og fer leikurinn fram 31. ágúst eða eftir aðeins sex daga.

