Erlent

Hélt að tvær finnskar blaðakonur væru sama konan

Atli Ísleifsson skrifar
Sauli Niinistö Finnlandsforseti hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta í gær.
Sauli Niinistö Finnlandsforseti hitti Donald Trump Bandaríkjaforseta í gær. Vísir/AFP
Skondið atvik átti sér stað á fréttamannafundi Donald Trump Bandaríkjaforseta og Sauli Niinistö Finnlandsforseta í Washington í gær þar sem Trump ruglaðist og taldi tvær finnskar blaðakonur vera einu og sömu konuna.

Blaðakonur YLE og FNB, þær Paula Vilén og Maria Annala, virðast hafa runnið saman í eitt í huga Trump þar sem forsetarnir svöruðu spurningum úr sal.

Niinistö gaf þá Annala færi á að spyrja spurningar þegar Trump greip inn í og spurði hvort hann ætli sér virkilega að gefa henni færi á að spyrja annarrar spurningar. Vilén hafði áður varpað fram spurningu á fréttamannafundinum.

Niinistö útskýrði þá fyrir Trump að þetta væri ekki sama fréttakona.

„Nei, þetta er ekki sama kona,“ sagði Niinistö. „Þær sitja hlið við hlið.“

Annala hóf þá mál sitt og sagði að vissulega væru margar ljóshærðar konur í Finnlandi, áður en hún spurði Trump hvort hann telji að Finnland gæti þjónað einhverju hlutverki við að bæta samskipti Bandaríkjanna og Rússlands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×