Mueller rannsakar nú meint samráð bandamanna Trump við fulltrúa rússneskra stjórnvalda í aðdraganda forsetakosninganna í fyrra. Trump hefur ekki viljað útiloka algerlega að hann muni reka Mueller, til dæmis ef hann byrjar að rannsaka fjármál hans eða fjölskyldu hans.
Trump hefur lýst rannsókninni sem „nornaveiðum“ og er sagður kenna Jeff Sessions, dómsmálaráðherra sínum, um að Mueller hafi verið skipaður. Sessions steig til hliðar í rannsókn ráðuneytisins á afskiptum Rússa af forsetakosningunum og meintu samráði bandamanna Trump við þá.
„Þeir eru að reyna að svíkja ykkur um forystuna sem þið viljið með gervifrétt,“ sagði Trump um rannsóknina við þúsundir stuðningsmanna sinna á fjöldafundi í Vestur-Virginíu í gærkvöldi.
Þyrfti að fá samþykki þriggja alríkisdómara
Forsetinn getur ekki rekið Mueller sjálfur en miklar vangaveltur hafa verið um að hann muni reka Sessions og skipa eftirmann sem væri tilbúinn að láta Mueller fara.
Samvæmt frumvörpum sem fjórir öldungadeildarþingmenn, tveir repúblikanar og tveir demókratar, hafa lagt fram gæti Trump ekki rekið Mueller nema með samþykki alríkisdómara, að því er segir í frétt Washington Post.
„Þetta er fyrsta skrefið í að setja hraðahindrun í veg ófyrirséðs brottreksturs hans,“ segir Thom Tillis, öldungadeildarþingmaður repúblikana frá Norður-Karólínu sem stendur að öðru frumvarpinu.

Aukinn þungi hefur færst í rannsókn Mueller. Í gær var greint frá því að hann hefði gefið út stefnur fyrir kviðdóm sem er ætlað að leggja mat á sönnunargögn sem varða fund Donalds Trump yngri, sonar forsetans, Jareds Kushner, tengdasonar forsetans, og Pauls Manafort, þáverandi kosningastjóra Trump, með rússneskum lögmanni í fyrra.
Þá hefur verið sagt frá því að rannsakendur Mueller séu komnir á peningaslóðina og kanni mögulega fjármálaglæpi bandamanna Trump.