Umfjöllun, viðtöl, myndir og einkunnir: Víkingur R - ÍBV 1-1 | Castillion bjargaði stigi fyrir Víking | Sjáðu mörkin

Ástrós Ýr Eggertsdóttir skrifar
Víkingur R og ÍBV skildu jöfn 1-1 í Víkinni í Fossvogi í dag í fyrsta leik 14. umferðar Pepsi deildar karla. Eyjamenn komust yfir snemma leiks en Víkingar jöfnuðu á 83. mínútu leiksins.

Leikurinn fór vel af stað og náðu gestirnir úr Vestmannaeyjum að komast yfir strax á 7. mínútu þegar Daninn Mikkel Maigaard skoraði. Gunnar Heiðar Þorvaldsson átti misheppnað skot og hitti boltann illa, hann barst til Maigaard í teignum og eftirleikurinn nokkuð auðveldur fyrir Maigaard.

Alls voru 9 hornspyrnur á fyrstu átján mínútum leiksins og var mikið um fína takta í byrjun leiks. Hins vegar dofnaði yfir spilinu upp úr miðjum hálfleiknum og lítið sem gerðist fram að leikhléi.

Seinni hálfleikur hélt svo áfram á sama róli, lítið sem var að gerast og Víkingar sköpuðu sér afar lítið í hálfleiknum. Það dró svo til tíðinda á 74. mínútu þegar heimamenn ná að koma boltanum í netið en Þorvaldur Árnason, dómari leiksins, dæmir markið af.

Við það lifnaði yfir leiknum og Víkingar fóru að sækja meira. Þá opnaðist fyrir Eyjamenn að beita skyndisóknum og áttu þeir tvö dauðafæri áður en Geoffrey Castillion jafnaði leikinn á 83. mínútu.

Fleiri mörk voru ekki skoruð og þurftu liðin að sætta sig við að fara með eitt stig af velli í dag.

Afhverju varð jafntefli?

ÍBV náðu ekki að nýta sér dauðafæri til þess að klára leikinn. Víkingar sköpuðu sér ekki mikið drungann af leiknum en þeir náðu að skora og næla sér í stig. Jafntefli líklegast sanngjörn niðurstaða í þessum leik.

Hverjir stóðu upp úr?

Erfitt að velja úr, það var enginn sem átti yfirburða dag í dag. Sindri Snær Magnússon og Óskar Elías Zoega Óskarsson voru mjög duglegir fyrir Eyjamenn í dag. Vladimir Tufegdzic og Geoffrey Castillion áttu svo fínan leik fyrir heimamenn.

Kaj Leo í Bartalsstovu var mjög vinnusamur fyrir Eyjamenn, þó að stundum hafi ákvarðanatakan verið misgáfuleg. Hann varð fyrir valinu sem maður leiksins í dag, einkunnir allra má sjá undir „Liðin“ hér að ofan.

Hvað gekk illa?

Gestunum gekk illa að nýta færin sín. Þeir geta séð þennan leik sem töpuð tvö stig þar sem þeir hefðu getað gengið frá honum í seinni hálfleik áður en heimamenn ná að setja mark á þá.

Hvað gerist næst?

ÍBV á leik í úrslitum Borgunarbikarsins á laugardaginn gegn Stjörnunni. Næsti leikur þeirra í deildinni verður svo miðvikudaginn 16. ágúst þegar þeir fá Víking Ólafsvík í heimsókn til Vestmannaeyja.

Víkingur R fer á Kópavogsvöll á mánudaginn eftir viku þar sem þeir sækja Breiðablik heim.

Logi Ólafsson, þjálfari Víkingavísir/stefán
Logi: Getum ekki kennt dómaranum um

„Að fá eitt stig úr því sem komið var er kannski ásættanleg niðurstaða. Við fáum á okkur mark mjög snemma og þá opnast svolítið leikurinn. Þeir ná að skapa ágætis marktækifæri, sem er nú kannski vegna þess að við erum að setja menn í sóknina. Aukaspyrnur og hornspyrnur sem við setjum beint í hendurnar á markmanninum og þeir gera hröð upphlaup út úr því sem er ekki nógu gott,“ sagði Logi Ólafsson, þjálfari Víkings, eftir leikinn.

Logi gat ekki tjáð sig um markið sem dæmt var af hans mönnum í seinni hálfleik.

„Mín skoðun er engin. Ég bara sá ekki neitt og við verðum að treysta dómurunum til að taka rétta ákvörðun.“ Það voru nokkur áköll um vítaspyrnur í leiknum, en Logi var heilt yfir nokkuð ánægður með dómara leiksins.

„Ég held þetta hafi verið ágætis frammistaða hjá honum, við getum allavega ekki kennt því um að hafa ekki unnið leikinn að hann hafi ekki staðið sig nógu vel.“

Kristján Guðmundsson er þjálfari ÍBV.vísir/eyþór
Kristján: Rangstaða í jöfnunarmarkinu

Þjálfari ÍBV, Kristján Guðmundsson, var nokkuð sáttur með niðurstöðuna eftir leikinn. „Oft við jafntefli þá koma ekki þessar sveiflur í skapgerðinni eins og við sigur eða tap, en bara fínt stig á útivelli.“

„Við erum mjög ósáttir með það að við skulum ekki klára færin okkar betur. Heilt yfir fannst mér leikurinn okkar ekki nógu góður, en við tökum samt stig úr honum. Sú staða að við hefðum getað tekið þrjú er þannig séð jákvæð, en við verðum að fara að nýta þessa sénsa til að taka þrjú stig.“

Kristján kannaðist ekkert við það að mark hefði verið dæmt af Víkingum og aðspurður sagði hann: „Ég man ekki eftir því, skoruðu þeir? Ég tók ekki eftir því. Ég veit bara að í jöfnunarmarkinu töluðu mínir menn um rangstöðu, en ég sá það ekki.“

vísir/andri marinó
Sindri Snær: Frammistaðan góð en súrt að vinna ekki leikinn

„Tvö töpuð stig, það er ekki flóknara en það,“ voru fyrstu orð Sindra Snæs Magnússonar, fyrirliða ÍBV, eftir leikinn.

„Við fengum risastórt færi og fáum mark í andlitið. Þannig er fótbolti og við verðum bara að halda áfram, það er ekkert annað í boði.“

Sindri var ánægður með frammistöðu Eyjamanna í leiknum.

„Við fengum góð færi. Við ætluðum að liggja aðeins til baka og sækja hratt á þá og mér fannst það ganga mjög vel og við fengum fullt af tækifærum til að klára leikinn, en gerðum það ekki og fengum mark í andlitið þannig við erum svolítið súrir.“

Róbert Örn: Vildum vinna ÍBV

„Ég veit það ekki,“ var svar Róberts Arnar Óskarssonar, fyrirliða Víkings, þegar hann var spurður um fyrstu viðbrögð eftir leikinn í kvöld. „Það var fínt að fá eitt stig úr því sem komið var, en okkur langaði að vinna þennan leik. Búnir að tapa tvisvar fyrir ÍBV í sumar og fannst nóg komið.“

„Ég er gríðarlega stoltur af strákunum og vinnuframlaginu sem við gáfum í þennan leik, en það vantaði aðeins upp á að vera grimmari fram á við. Tæknilega vorum við kannski aðeins á hælunum. Við náðum að sýna karakter og koma til baka.“

Spurður um markið sem dæmt var af og frammistöðu dómarans sagði Róbert Örn: „Ég sá það ekki alveg nógu vel ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég legg það ekki í vana minn að tjá mig mikið um dómarana, frammistaðan var bara eins og hún var.“

Sindri Snær með boltann.vísir/andri marinó
Róbert Örn fer út í teiginn.vísir/andri marinó

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira