Portúgal á enn möguleika á að komast áfram í 8-liða úrslit á EM kvenna í fótbolta eftir 1-2 sigur á Skotlandi í Rotterdam í dag. Þetta var fyrsti sigur portúgalska kvennalandsliðsins á stórmóti frá upphafi.
Leikurinn í dag var í C-riðli en síðar í kvöld mætast England og Spánn í sama riðli. Portúgal er með þrjú stig í 3. sæti riðilsins, jafn mörg og England og Spánn.
Carolina Mendes, leikmaður Grindavíkur í Pepsi-deild kvenna, kom Portúgölum yfir á 27. mínútu. Þetta var fyrsta mark Portúgals á stórmóti frá upphafi.
Á 68. mínútu jafnaði Erin Cuthbert metin, fjórtán mínútum eftir að hafa komið inn á sem varamaður.
Það var svo annar varamaður, Ana Leite, sem skoraði sigurmark Portúgala á 72. mínútu. Lokatölur 1-2, Portúgal í vil.
Portúgal mætir Englandi í lokaumferð riðlakeppninnar á fimmtudaginn á meðan Skotland mætir Spáni.
Leikmaður Grindavíkur skoraði í fyrsta sigri Portúgals á stórmóti
![Carolina Mendes kemur boltanum framhjá Gemmu Fay, markverði Skotlands og Stjörnunnar.](https://www.visir.is/i/A32EA2C288787B05EE7B3C9964029B66DE64A307154CB24C86FFD44ADDDF932F_713x0.jpg)