Þetta var stærsta þríþrautamót sem haldið hefur verið á Íslandi en yfir 200 keppendur voru skráðir til leiks þar á meðal um 150 erlendir keppendur og 25 atvinnumenn sem eru í fremstu röð í greininni í heiminum.
Þá var Challenge Iceland Íslandsmeistaramót í hálfum járnmanni en Hákon Hrafn Sigurðsson og Rannveig Anna Guicharnaud urðu Íslandsmeistarar um helgina.
Keppnin var haldin við einstakar aðstæður í Hvalfirðinum. Í keppninni sem er hálfur járnmaður þurftu keppendur að synda 1.9 kílómetra í Meðalfellsvatni, hjóla 90 kílómetra hring um Hvalfjörð og hlaupa síðan 21.1 kílómetra í kringum Meðalfellsvatnið í Kjósinni.
Aðstæðurnar í Kjósinni er þegar farnar að vekja mikla athygli innan þríþrautarheimsins og það þrátt fyrir að aðeins eitt mót sé að baki.

Margfaldir heimsmeistarar hafa látið hafa það eftir sér að þetta sé ein fallegasta keppnisbraut fyrir þríþraut í heiminum. Þetta hefur líka skilað sér í stórauknum áhuga á keppninni en það voru 90 keppendur í fyrra en þeir voru yfir tvö hundruð í ár.
Ísland er nýjasta viðbótin í Challenge fjölskyldunni sem heldur 47 þríþrautakeppnir í 23 löndum út um allan heim. „Ísland er undravert land og náttúrufegurðin mögnuð,” sagði Zibi Szlufcik, forstjóri Challenge fjölskyldunnar í fréttatilkynningu um keppnina.

Jeanni Seymour var fyrst eftir sundið en missti Heather Wurtele framúr sér á hjólinu. Hún tryggði sér hinsvegar sigur með því að ná Heather í hlaupinu.
Bandaríkjamaðurinn Justin Metzler var að vinna sitt fyrsta atvinnumannamót og ekki slæmt að gera það við þessar mögnuðu aðstæður í Hvalfirðinum. Svíinn Jesper Svensson var efstur eftir bæði sundið og hjólahlutann en Justin Metzler var sterkastur í hálfmaraþoninu og tryggði sér sigurinn. Trevor Wurtele frá Kanada var annar en Svensson datt alla leið niður í þriðja sætið.
Úrslit í atvinnumannaflokki eru sem hér segir:
Konur
1. Jeanni Seymour (Suður-Afríka) 4:18:02 klukkutímar
2. Heather Wurtele (Kanada) 4:18:22
3. Sarissa De Vries (Holland) 4:37:03
Karlmenn
1. Justin Metzler (Bandaríkin) 3:56:21 klukkutímar
2. Trevor Wurtele (Kanada) 3:58:45
3. Jesper Svensson (Svíþjóð) 3:59:25

