Lífið

Ísland rándýrt en samt miklu betra en Færeyjar

Kolbeinn Tumi Daðason og Stefán Ó. Jónsson skrifa
Vegfarendur í Skógarhlíðinni sneru sig nánast úr hálsliðnum þegar þetta forláta rúgbrauð renndi í hlaðið.
Vegfarendur í Skógarhlíðinni sneru sig nánast úr hálsliðnum þegar þetta forláta rúgbrauð renndi í hlaðið. Vísir/KTD
Hollendingurinn Jeen Holwerda er hæstánægður með Íslandsferð sína þrátt fyrir hátt verðlag, sveiflukennt veður og áhugasama ljósmyndara sem sitja nánast um bílinn hans.

Hann hefur verið hér ásamt kærustu sinni, Petru Hofstra, undanfarna 9 daga. Þau komu með Norrænu frá Færeyjum, keyrðu norðurleiðina til Reykjavíkur og hyggjast keyra eftir suðurströndinni aftur til Seyðisfjarðar.

Alls munu þau verja rúmlega þremur vikum á Íslandi og eru hæstánægð með það sem þau hafa séð og upplifað á Íslandi til þessa.

„Þetta hefur verið dásamlegt. Reglulega, reglulega notalegt. Þetta er stórfenglegt land,“ segir Holwerda sem bætir við að Gullni hringurinn og heitir hverir hafi staðið upp úr enn sem komið er.

Deyja ekki ráðalaus þrátt fyrir hátt verð

Blaðamaður Vísis rakst á Holwerda á bensínstöð í Skógarhlíð og lá því beinast við að spyrja hann hvað honum þætti um eldsneytisverðið á Íslandi - samanborið við heimalandið Holland.

„Það er tvöfalt dýrara en það sem við eigum að venjast í heima. Það sama á við um matinn og í raun allt annað,“ segir Holwerda.

Þess vegna séu þau með mikið af útilegudóti með sér til að halda kostnaðinum niðri. Til að mynda eru þau með kæli aftan á bílnum þar sem þau geyma mat og drykk á ferðalaginu.

Það þýðir þó ekki að þau hafi ekki smakkað það sem Ísland hefur upp á að bjóða. „Við höfum auðvitað fengið okkur fisk. Þú verður að fá þér fisk þegar þú ert á Íslandi.“



Ljósmyndaður í bak og fyrir

Holwerda segir Íslendinga hafa tekið þeim opnum örmum og alla jafna verið mjög áhugasama um bílinn þeirra - hið forláta Volkswagen rúgbrauð. Þeir hafi verið duglegir að taka myndir af drossíunni á ferð hennar um landið, sem og asískir ferðamenn sem hafa orðið á vegi þeirra. 

Bílinn er árgerð 1966 og hefur hann dundað sér við að gera bílinn algjörlega upp. Það hafi tekið hann 10 ár. Þrátt fyrir að rúgbrauðið sé orðið rúmlega fimmtugt segir Holswerda að það sé enn í toppstandi og ráði vel við 90 kílómetra hámarkshraðann á vegum landsins.

„Þegar það rignir þá blotnar það stundum að innan en að öðru leyti er það eins og nýtt,“ segir Holswerda stoltur.

Hann kvíðir því ekki að keyra Suðurlandið aftur til Seyðisfjarðar þar sem Norræna bíður þeirra. Með ferjunni munu þau sigla aftur til Færeyja áður en þau halda svo aftur til meginlandsins.



Færeyjar fínar en Ísland betra

Holwerda ber Færeyjum vel söguna en segir þær þó ekki eiga roð í Íslandi.

„Þegar maður kemur til Færeyja er allt gífurlega stórfenglegt í fyrstu. Há og brött fjöll, djúpir dalir og svo framvegis. Svo kemurðu til Íslands og þar eru fjöllin enn hærri og enn brattari, meiri snjór og allt er stórfenglegra. Þannig að Ísland er miklu, miklu fallegra en Færeyjar. Svo sannarlega.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×