Theresa May, formaður Íhaldsflokksins og forsætisráðherra Bretlands, hefur beðið þingmenn flokksins afsökunar á gengi hans í kosningunum í síðustu viku.
Flokkurinn missti þá meirihluta sinn á þingi í kosningunum en May boðaði til þingkosninga með skömmum fyrirvara undir þeim formerkjum að hún vildi fá sterkara umboð til að leiða þjóðina í viðræðunum um útgöngu Breta úr Evrópusambandinu.
Það fór hins vegar öðruvísi en hún ætlaði en May freistar þess nú að mynda minnihlutastjórn með stuðningi Lýðræðislega sambandsflokksins á Norður-Írlandi.
Að því er greint er frá á vef Breska ríkisútvarpsins, BBC, hélt hún fund með þingmönnum Íhaldsflokksins þar sem hún kvaðst axla ábyrgð á því að boða til kosninganna með svona skömmum fyrirvara og á úrslitunum.
Viðræður standa enn yfir á milli Íhaldsflokksins og Lýðræðislega sambandsflokksins vegna stuðnings síðarnefnda flokksins við minnihlutastjórn Íhaldsflokksins. Fyrr í dag var greint frá því að May hefði myndað nýja ríkisstjórn en viðræðurnar snúa að því að Lýðræðislegi sambandsflokkurinn verji þá stjórn falli.
Ekki er víst hvenær þeim viðræðum lýkur en Verkamannaflokkurinn hefur sagt að ríkisstjórnin sé í afneitun varðandi úrslit kosninganna og að upplausn ríki innan raða hennar. Þannig hefur stefnuræðu ríkisstjórnarinnar verið frestað en hún átti upphaflega að vera þann 19. júní næstkomandi. Ekki hefur verið ákveðið hvenær stefnuræðan verður flutt.
May bað þingmenn Íhaldsflokksins afsökunar

Tengdar fréttir

Stefnuræðu bresku stjórnarinnar frestað um nokkra daga
Venju samkvæmt er það Elísabet Bretlandsdrottning sem flytur stefnuræðuna, en upphaflega stóð til að ræðan yrði flutt 19. júní.

Corbyn vill fella ríkisstjórn May
Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, hefur tilkynnt að flokkurinn hyggist bjóða öðrum stjórnmálaflokkum að fella ríkisstjórn Íhaldsflokksins og kjósa stefnuskrá Verkamannaflokksins.