Erlent

Farage undir rannsókn FBI vegna tengsla Trump við Rússland

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Nigel Farage.
Nigel Farage. vísir/EPA
Tengsl Nigel Farage, evrópuþingmanns og fyrrverandi leiðtoga UKIP í Bretlandi, við Donald Trump og möguleg samskipti starfsmanna hans við Rússland í aðdraganda forsetakosninganna í Bandaríkjunum eru til rannsóknar bandarísku alríkislögreglunnar FBI.

The Guardian greinir frá en FBI rannsakar nú meint afskipti Rússlands af forsetakosningunum í Bandaríkjunum. Heimildarmenn Guardian segja að Farage hafi vakið athygli FBI vegna tengsla hans við einstaklinga verið er að rannsaka, starfsmönnum forsetaframboðs Trump sem og Julian Assange, stofnanda Wikileaks.

Farage heimsótti Assange í mars síðastliðnum en Wikileaks birti sem frægt er fjölda tölvupósta sem sköðuðu forsetaframboð Hillary Clinton, mótframbjóðanda Trump. Assange er grunaður um að hafa átt í samstarfi við Rússa í gegnum þriðju aðila.

Evrópuþingmaðurinn umdeildi, sem spilaði stórt hlutverk í kosningabaráttunni í aðdraganda Brexit-kosninganna í Bretlandi síðastliðið sumar, er ekki grunaður um neitt misjafnt, né er hann miðpunktur rannsóknarinnar. Bandarískir rannsakendur telja þó líklegt að hann kunni að búa yfir upplýsingum sem hjálpað geti við rannsóknina.


Tengdar fréttir

Comey mun bera vitni hjá öldungadeildinni um samskipti sín við Trump

James Comey, fyrrverandi forstjóri Bandarísku alríkislögreglunnar, FBI, mun bera vitni hjá öldungadeild Bandaríkjaþings í næstu viku og staðfesta þar ásakanir þess efnis að Donald Tump, Bandaríkjaforseti, hafi þrýst á hann um að hætta rannsókn á meintum tengslum ráðgjafa forsetans við Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×