Erlent

Tuttugu sýrlenskir uppreisnarmenn féllu í sjálfsmorðsárás ISIS

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Gert var að sárum uppreisnarmanna í kjölfar árásarinnar.
Gert var að sárum uppreisnarmanna í kjölfar árásarinnar. Vísir/AFP
Að minnsta kosti tuttugu sýrlenskir uppreisnarmenn féllu og um þrjátíu eru særðir í sprengjuárás á höfuðstöðvar Ahrar al-Sham hópsins í þorpi austan við borgina Saraqib í Idlib-héraði í Sýrlandi. Hryðjuverkasamtökin ISIS, sem kennd eru við íslamska ríkið, hafa lýst yfir ábyrgð á árásinni. Reuters greinir frá.

Í yfirlýsingu frá Ahrar al-Sham hópnum, sem berst á móti ríkisstjórn forseta Sýrlands, Bashir al-Assad, kemur fram að árásarmaður hafi keyrt upp að höfðustöðvunum á mótorhjóli og sprengt þar tvær sprengjur, aðra hafði hann fest við sjálfan sig og hina á hjólið.

Idlib-héraðið í Sýrlandi hefur lengi verið vígi uppreisnarmanna þar í landi. Hópar tengdir Ahrar al-Sham hafa átt í útistöðum við Hayat Tahrir al-Sham bandalagið, sem talið er tengt hryðjuverkasamtökunum al Qaeda. Þá hafa yfirvöld í Sýrlandi notfært sér innanbúðardeilur uppreisnarmanna í þeim tilgangi að ná aftur yfirráðum yfir svæðum þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×