Körfubolti

Durant og Westbrook aftur farnir að tala saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Russell Westbrook og Kevin Durant.
Russell Westbrook og Kevin Durant. Vísir/Getty
Hin frægu vinslit Russell Westbrook og Kevin Durant hafa verið mikið á milli tannanna á áhugafólki um NBA-deildina í körfubolta á þessu tímabili eftir að Durant stakk af og samdi við Golden State Warriors.

Durant skildi Russell Westbrook einan eftir hjá Oklahoma City Thunder en Russell svaraði því með sögulegu tímabili þar sem hann varð aðeins annar maður í sögunnar til að vera með þrennu að meðaltali í leik og einnig sá sem hefur náð flestum þrennum á einu tímabili.

Kevin Durant hefur reyndar gert það fínt með Golden State Warriors og hann á góða möguleika á því að verða NBA-meistari í fyrsta sinn í næsta mánuði.

Kendrick Perkins spilaði með þeim Durant og Westbrook í Oklahoma City Thunder frá 2011 til 2015 og hann segist hafa verið milligöngumaður í því að fá þá Durant og Westbrook til að sættast.  ESPN segir frá.

Það tókst hjá Perkins eftir að Russell Westbrook hafði slegið met Oscar Robertson í síðasta mánuði.

Perkins sagði frá þessu í þættinum „Area 21“ á TNT. Að hans mati var körfuboltaheimurinn að gera alltof mikið úr þessu ósætti á milli Russell Westbrook og Kevin Durant.  Hans markmið var því að fá gömlu liðsfélaga sína til að tala aftur saman.

Durant lét hann seinna vita af því að hann og Russell Westbrook hafi átt gott spjall og þetta mál sé nú úr sögunni. Perkins trúir því líka að þeir Russell Westbrook og Kevin Durant verði liðsfélagar á nýjan leik í framtíðinni.

Svo gæti farið að hans mati að Durant spili aftur með Thunder en Perkins er sannfærður um að Westbrook sé ekkert á förum þaðan.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×