Erlent

Barron Trump byrjar í nýjum skóla í haust

Atli Ísleifsson skrifar
Barron og foreldrar hans, Melania og Donald Trump.
Barron og foreldrar hans, Melania og Donald Trump. Vísir/AFP
Barron Trump, sonur Donald Trump Bandaríkjaforseta og Melaniu Trump forsetafrúar, mun hefja nám í nýjum skóla í haust þegar hann flyst ásamt móður sinni frá New York til höfuðborgarinnar Washington.

Hinn ellefu ára Barron mun stunda nám í einkaskólanum St. Andrew’s Episcopal School í bænum Potomac í Maryland-ríki, um 35 kílómetrum norðvestur af Washington.

Barron mun klára skólaárið í Columbia Grammar and Preparatory School á Upper West Side á Manhattan í New York, en flyst svo búferlum til Washington í sumar.

Í frétt Washington Post segir að talið sé að hann sé nú að klára fimmta bekk grunnskóla.

Hvíta húsið hafði upphaflega ætlað að bíða með að tilkynna um flutninginn þar til í sumar af ótta við að St. Andrew’s Episcopal skólinn yrði vettvangur mótmæla.

Foreldrar barna í skólanum hafi hins vegar verið farnir að spyrja spurninga eftir að orðrómur um flutninginn fór á kreik og hafi því verið ákveðið að tilkynna um flutninginn þegar í stað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×