Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá bankanum. Segir að bankinn hafi skoðað ýmsa kosti í húsnæðismálum í samvinnu við ráðgjafarfyrirtækið KPMG og Mannvit verkfræðistofu og var niðurstaða greiningar KPMG sú að Austurhöfn væri ákjósanlegasti kosturinn.
„Bankinn mun nýta um 10.000 m2 í nýju húsi, um 60% af flatarmáli hússins, en selja eða leigja frá sér um 6.500 m2 sem munu nýtast fyrir verslun og aðra þjónustu. Bankinn mun fyrst og fremst nýta efri hæðir hússins þar sem fermetraverð er metið sambærilegt og á skrifstofuhúsnæði á öðrum góðum stöðum á höfuðborgarsvæðinu. Verðmætustu hlutar hússins á neðri hæðum verða að stærstum hluta seldir og umframrými á efri hæðum leigt út,“ segir í tilkynningunni.
Starfsemin á færri fermetrum
Í mati KPMG á staðarvalkostum var horft til hagkvæmni, verðgildis hússins til framtíðar, samgangna, staðsetningar, skipulagsmála, sveigjanleika húsnæðis og þjónustu og mannlífs í nágrenninu. „Fjölbreytt starfsemi bankans gerir það að verkum að bankinn telur þörf á að vera með starfsemi sína miðsvæðis á höfuðborgarsvæðinu. Meðal kosta sem voru sérstaklega skoðaðir voru lóðir í grennd við Borgartún, Kringlu og Smáralind. Niðurstaðan var að Austurhöfn er ákjósanlegasti kosturinn þegar tekið er tillit til allra ofangreindra atriða.Með flutningi í nýtt húsnæði mun starfsemi sem í dag fer fram á um 21.000 m2 rúmast á um 10.000 m2. Þetta er umtalsvert minna húsnæði en áður var talið að þyrfti undir starfsemina. Markmiðið með flutningum í nýtt hús er að ná fram hagræðingu, auka skilvirkni og mæta kröfum um breytt vinnulag í fjármálaþjónustu. Í því felst meðal annars að vinnuaðstaða í húsinu verður verkefnamiðuð og starfsfólk geti fært sig til eftir því sem verkefni krefjast,“ segir í tilkynningunni.
Árlegur sparnaður vegna flutninga á starfsemi bankans í nýtt húsnæði er metinn vera um 500 milljónir króna. „Áætlaður kostnaður við að reisa 16.500 m2 hús er um 9 milljarðar króna, að lóðarverði meðtöldu. Að teknu tilliti til þess að bankinn mun selja og/eða leigja 6.500 m2 er gert ráð fyrir að kostnaður bankans við þann hluta hússins sem hann mun nýta verði um 5,5 milljarðar króna. Á móti kæmi söluverðmæti þeirra fasteigna sem bankinn getur selt við flutningana,“ segir í tilkynningunni.