Fljótasti maður allra tíma, Usain Bolt, var með fyrstu mönnum á slysstað er einn af hans bestu vinum lést í mótorhjólaslysi á Jamaíka í gær.
Sá hét Germaine Mason og var hástökkvari. Hann var aðeins 34 ára gamall. Hann er fæddur og uppalinn á Jamaíka en fékk sér síðan breskt ríkisfang og keppti fyrir Breta á ÓL. Hann fékk silfurverðlaun á ÓL í Peking árið 2008.
Það eru ýmsar óstaðfestar sögur í gangi varðandi slysið. Mason hefur verið sagður hafa verið á leið úr gleðskap heima hjá Bolt og einnig er sagt að hann hafi verið í hópi með Bolt og fleirum sem voru úti að hjóla.
Í það minnsta var Bolt mjög nærri og með fyrstu mönnum á slysstað.
„Bolt var í miklu uppnámi og er enn,“ sagði lögreglan við fjölmiðla.
Mason var ekki með hjálm er hann missti stjórn á mótorhjólinu. Hann hlaut alvarleg sár í fallinu og lést á slysstað.
