„Ég er búinn að leggja fram beiðni um dómkvaðningu tveggja nýrra matsmanna. Það yrði nýtt undirmat og sjálfstætt og hefði ekkert með fyrri möt að gera. Ég fór fram á yfirmatið en er með þessu að afla frekari sönnunargagna til að svara spurningum sem ég tel að sé enn ósvarað,“ segir Sigurður G. Guðjónsson, lögmaður Valitor í skaðabótamálinu.
Hæstiréttur staðfesti í apríl 2013 heimildarskort Valitor til riftunar á söluaðilasamningi við Datacell sem tryggði félaginu greiðslugátt fyrir íslenska einkahlutafélagið SPP, rekstrarfélag Wikileaks. Gáttin var lokuð frá 8. júlí 2011 til 19. maí 2013 og lögðu fyrirtækin tvö upphaflega fram átta milljarða króna skaðabótakröfu. Sveinn Andri Sveinsson, lögmaður Datacell og SPP, segir hana nú standa í um sex milljörðum með dráttarvöxtum og kostnaði í kjölfar niðurstöðu undirmatsmannanna.

„Ég beindi hins vegar áskorun til Valitor í mars um að yfirmatið yrði lagt fram en lögmaður fyrirtækisins hefur haft það síðan um miðjan þann mánuð. Það var bókað eftir honum í fyrirtöku fyrir dómi þann 20. mars að hann væri ósáttur við niðurstöðu yfirmatsins og að yfirmatsmennirnir hefðu ekki svarað tilteknum spurningum. En það er auðvitað ekki þannig að menn geti endalaust fengið nýtt mat þangað til þeir eru ánægðir með niðurstöðuna. Þetta er því í mínum huga vandræðagangur en við bíðum rólegir.“

„Það er bara eitt af þessum sönnunargögnum og ég ákveð hvort það verður lagt fram en það hefur ekki verið gert hingað til.“
Datacell er íslenskt einkahlutafélag, stofnað árið 2009 af þeim Ólafi Vigni Sigurvinssyni og Andreasi Fink. Samkvæmt ársreikningi SPP fyrir árið 2015 eru 84 prósent félagsins í eigu Julians Assange, stofnanda Wikileaks, og tvö prósent í eigu Kristins Hrafnssonar, talsmanns síðunnar.