Viðskipti erlent

Framtíð Toshiba í óvissu

Sæunn Gísladóttir skrifar
Talið er að heilsárstap Toshiba gæti verið eitt það stærsta í sögu japanskra fyrirtækja.
Talið er að heilsárstap Toshiba gæti verið eitt það stærsta í sögu japanskra fyrirtækja. Vísir/EPA
Forsvarsmenn japanska tæknifyrirtækisins Toshiba vara nú við að fyrirtækið geti mögulega ekki haldið áfram starfsemi. BBC greinir frá þessu.

Frá apríl til desember á síðasta ári tapaði fyrirtæki 4,8 milljörðum Bandaríkjadala, 540 milljarða króna. Endurskoðandi fyrirtækisins á þó enn eftir að staðfesta þessar tölur.

Toshiba hefur tvisvar frestað því að birta gögn um fjárhagsstöðu fyrirtækisins sem gæti leitt til þess að fyrirtækið verði tekið af markaði í kauphöllinni í Tókýó. Talið er að haldinn verði blaðamannafundur um málið síðar í vikunni.

Toshiba hefur staðið frammi fyrir mörgum erfiðleikum undanfarin misseri. Árið 2015 kom upp hneykslismál sem leiddi til afsagnar fjölda leiðtoga innan fyrirtækisins. Einnig kom fram að starfsstöð fyrirtækisins í Bandaríkjunum, Westinghouse, ætti í fjárhagsvandræðum fyrr á þessu ári.

Tapið sem greint var frá á við um fyrstu níu mánuði síðasta árs, talið er að heildartap ársins hlaupi í billjónum japanskra jen. Ef svo fer er um að ræða eitt stærsta tap hjá japönsku fyrirtæki í sögunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×